29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Forsætisráðherra (JM):

Eins og háttv. flm. brtt. á þskj. 242 (BSt) tók fram, hefir ekki í ár komið nein umsókn til stjórnarinnar frá þeim manni, er þar ræðir um, en hann var tekinn í frv. stjórnarinnar í fyrra. Jeg hygg, að jeg fari rjett með það, að hann hefir dvalið hjer mörg ár, er giftur íslenskri konu og talar sæmilega íslensku. Jeg er ekki alveg samdóma hv. frsm. allshn. (JBald) um það, að hann hafi fengið svar frá allshn. í fyrra. Það var heldur tregt um greið svör þaðan. En hvað um það; jeg sje ekki ástæðu til þess að leggja nokkuð sjerstaklega til um þennan mann núna, úr því að hann hefir ekki snúið sjer til stjórnarinnar. Það er ekki heldur eins mikil ástæða til þess að veita honum ríkisborgararjett nú sem í fyrra. Það er harðast gagnvart konu og börnum, ef erlendur maður, sem er giftur íslenskri konu, getur ekki öðlast ríkisborgararjett. En ef frv. það um breytingu á lögunum um ríkisborgararjett., sem nú er í hv. Ed., gengur fram, þá er sú ástæða að miklu burtu numin. Þar er gert ráð fyrir því, að kona missi ekki ríkisborgararjett í föðurlandi sínu meðan hún dvelst þar, þótt hún sje gift erlendum ríkisborgara. En jeg geri ráð fyrir, að það frv. nái fram að ganga. En annars vil jeg segja það, að alment tekið er ekki ástæða til þess að halda mjög aftur af í þessu efni. Það eru ekki svo margir, sem sækja um að fá íslenskan ríkisborgararjett, að ekki sje óhætt að veita hann flestum, sem um hann sækja, ef þeir tala íslensku og hafa átt hjer heima nokkuð mörg ár.