29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Magnús Torfason:

Við 1. umr. þessa máls mátti skilja það á hæstv. forsrh. (JM), að honum líkaði ekki framkoma allshn. í þessu máli í fyrra. Mjer er sagt, að hann hafi kveðið enn fastara að orði við 2. umræðu, en þá var jeg ekki viðstaddur. Þá hafði hann þakkað núverandi nefnd fyrir till. hennar, en um leið ekki getað annað en hnýtt í nefndina frá í fyrra fyrir afskifti hennar af málinu. Jeg bjóst ekki við því að þurfa að taka til máls. Jeg er samþykkur þessu frv., en úr því að hæstv. forsrh. fór að fetta fingur út í gerðir nefndarinnar í fyrra, vil jeg skýra frá því, hvað olli drættinum í nefndinni. Meðal annars var hann af því, að upplýsingar ýmsar, sem nefndin vildi fá, komu ekki fyr en seint og síðar meir, og þegar þær komu, voru þær þess eðlis, að nefndin gat ekki lagt til að samþykkja veiting ríkisborgararjettarins. Hvað þann mann snertir, er brtt. hv. 2. þm. Eyf. (BSt) á við, þá var það sárt mál í fyrra, og jeg býst við því, að svo geti verið enn, ef farið væri út í það. Þannig leit nefndin á það, og jeg held, að stjórnin og flokksmenn hennar ættu að vera henni sammála um, að það sje ekki rjett að fara að deila um slíkt hjer á þinginu. Eins og hv. frsm. allshn. (JBald) tók fram, álít jeg, að slík mál eigi að afgera í nefndum, en ekki að draga þau inn í þingið, og er það gert af hlífð við hlutaðeigandi menn. Ennfremur verð jeg að telja það rjett, að slík mál sem þessi komi frá stjórninni, en ekki einstökum þm. Jeg vil því styðja hæstv. forsrh. með því að láta hans frv. ganga fram óbreytt.

Jeg held, að jeg hafi nú gert grein fyrir því, að það er síður en svo ástæða fyrir hæstv. forsrh. að áfellast allshn. í fyrra fyrir afskifti hennar af málinu. Miklu fremur ætti hann að vera nefndinni þakklátur fyrir, hvernig hún fór með það.