28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Eggert Pálsson):

Eins og nál. ber með sjer, leggur allshn. til, að frv. verði samþykt eins og það kom frá háttv. Nd. Þegar frv. kom fyrir háttv. Nd., þá var ekki um að ræða nema tvo menn, sem lagt var til að veita ríkisborgararjettindi. En síðan var bætt við einum manni enn. En að stjórnin upphaflega tók ekki þennan þriðja mann upp í frv., mun hafa stafað af því, að umsókn hans, sem er dagsett 2. jan. 1924, var að áliti stjórnarinnar ekki í fullu lagi, þar sem vantaði bæði meðmæli frá viðkomandi lögreglustjóra og hreppsnefnd. Nú hefir verið bætt úr þessu hvorutveggja. Hefir bæjarfógetinn á Akureyri sent símskeyti, þar sem eindregið er mælt með þessu, og samskonar símskeyti hefir borist frá hreppsnefnd Glæsibæjarhrepps, undirritað af 5 hreppsnefndarmönnum. Samkvæmt þessu flutti hv. 2. þm. Eyf. (BSt) till. í hv. Nd. um að taka þennan mann, Laurits Parelius Kristiansen í Krossanesi, upp í frv. Háttv. Nd. samþykti þessa till. og allshn. sjer ekki ástæðu til þess að gera röskun á samþykt hv. Nd. í þessu máli.