30.04.1926
Efri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Jónas Jónsson:

Jeg hefi ástæðu til að halda, að það væri ekki óviðeigandi að verða við ósk háttv. þm. Vestm. (JJós) í þessu máli, sjerstaklega þar sem fyrir þinginu liggja ráðstafanir í þá átt að gera útlendingum ekki eins auðvelt og verið hefir að reka hjer atvinnu. Mjer er persónulega kunnugt um það, að menn, sem kunnugir eru þar nyrðra, álíta, að það geti stafað nokkur hætta af því, ef þessi liður verður samþyktur óbreyttur, því að þar sje verið að vinna á móti þeirri hugsun, sem vakir fyrir Alþingi, að Íslendingar fái sem mest að njóta gæða landsins.