25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

1. mál, fjárlög 1927

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þarf ekki að taka það fram, að jeg tek ekki til máls sem frsm. síðari hluta fjárlaganna fyrir hönd nefndarinnar, heldur sem stjórnarandstæðingur fyrir hönd kjósenda minna og þess flokks, sem jeg starfa í. Mun jeg í þetta sinn hefja eldhúsverkin á nokkuð óvenjulegan hátt. Jeg ætla að fara að dæmi eins hins vitrasta Íslendings, sem uppi hefir verið og ritað hefir þátt úr sögn Íslands betur en nokkur annar — Sturlu lögmanns Þórðarsonar. Það var eitt sinn fyrir nálega 700 árum — rjett áður en Þórður kakali rjetti hlut Sturlunga — að hann sat fanginn á valdi fjandmanna sinna. Frændur hans höfðu verið drepnir norður á Örlygsstöðum, en hann sjálfur hrakinn. Snorri Sturluson hafði verið veginn í Reykholti. Hann og Órækja höfðu verið sviknir við Hvítárbrú. Sturla sat í Tungu á valdi Gissurar jarls og átti að svara „skökkum sáttum“. Hann segir sjálfur frá tíðindum, svo það fer ekki milli mála. „Var Sturla til kallaður að inna þetta mál,“ — segir í Íslendingasögu, — „en hann kvaðst ekki mundi inna annað en víg Snorra.“ Hann inti ekki dráp frænda sinna stórgöfugra og ástvina á Örlygsstöðum, og hann inti ekki sína eigin hrakninga. Hann inti ekki svikin við Hvítárbrú nje heldur fangelsisvist sína. — Hann inti það eitt, sem var mest, og svo mikið, að alt annað hvarf fyrir — að lærimeistari hans, skáldmæringur Íslands og sagnfræðingajöfur, sem mestur hefir verið á Íslandi, var svikinn og drepinn.

Jeg ætla að fara að dæmi Sturlu Þórðarsonar. Jeg hefi ótal margar sakir á hendur hæstv. landsstjórn, fjölda ávirðinga, stærri og smærri, sem venja er að telja upp á eldhúsdegi. En jeg mun ekki inna þær. Ein ávirðingin, ein sökin ber svo langt af öllum og er svo mikil, að jeg hygg, að þegar skrifuð verður saga síðari tíma, verði það sagt, að aldrei hafi ógæfusamlegri landsstjórn setið á Íslandi. Afleiðingar þeirrar ógæfu eru svo gífurlegar orðnar þegar — og munu eftir enn meiri — að alt annað hverfur í skuggann, og við hliðina á þeirri sök getur jafnvel það svarta virst hvítt.

Jeg mun ekki inna á hendur dómsmálaráðherra eitthvert stærsta hneyksli í áfengismálinu — að neitað var kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að áfrýja dómi, en dæmdum smyglara skilað aftur áfengu öli. Jeg mun heldur ekki inna á hendur sama ráðherra, að einn elsti og grandvarasti lögfræðingur landsins hefir ráðist á lagaframkvæmd og rjettarrannsókn harðar en dæmi eru til, og dómsmálaráðherra þagað við. Jeg mun ekki inna það á hendur atvinnumálaráðherra — þótt jeg segði honum í gær, að jeg gerði það ef til vildi — að hann hefir misnotað vald sitt yfir bjargráðasjóði Íslands. Og jeg mun ekki inna á hendur fjármálaráðherra, að hann hefir móðgað bændastjett þessa lands með skipun í stjórn ræktunarsjóðsins, nje heldur það, að hann gaf þessari háttv. deild skakka skýrslu í stóru máli. (Atvrh. MG: Þetta skilst ekki, vill ekki háttv. þingmaður tala skýrar?). Jeg skal tala skýrar, ef hæstv. ráðherra beiðist þess síðar; nú ætla jeg að komast að efninu í máli mínu. Jeg mun ekki inna á hendur landsstjórninni í heild sinni hina grimmu skattamálastefnu hennar, meðal annars af þeirri ástæðu, að hún hefir nú verið barin svo til batnaðar, að hún hefir í bili runnið af þeim hólmi. Jeg mun jafnvel ekki inna það, að landsstjórnin og flokkur hennar er orðinn brotlegur gegn hinum æðstu lögum, sem krefjast ákveðins siðferðilegs hreinleika í framkomu opinberra starfsmanna.

Jeg læt vera að inna nokkuð af þessu og mörgu fleiru. Því að eitt hefir landsstjórnin gert, sem er Íslandi svo hættulegt og skaðsamt í nútíð og framtíð, að bæði jeg og aðrir ættu um það að fara að hinu fræga dæmi Catos hins gamla og segja um það: „Praeterea censeo“ í hverri einustu ræðu og við hvert einasta tækifæri, til þess ef vera mætti, að að einhverju leyti yrði úr bölinu bætt og hindruð bölvum af því í framtíðinni. Jeg ætla að fara að dæmi Sturlu lögmanns og inna aðeins eitt, en það er víg íslenskra atvinnuvega, og jeg lýsi því vígi á hendur landsstjórninni.

Með óviturlegri, gríðarmikilli gengishækkun, þvert á móti yfirlýstum vilja þingsins, sem landsstjórnin í raun og veru ein ber ábyrgð á, hefir verið framið ógurlegt ranglæti á miklum meiri hluta þjóðarinnar. Og bændastjett landsins, sem framtíð landsins, að minsta kosti um andlegu og heilbrigðilegu hliðina, hvílir mest á, hefir með gengishækkuninni verið skattlögð ranglega og svo mjög, að mikill afturkippur er þegar orðinn um framsókn hennar og þegar brotnir á bak aftur margir hinna ungu og efnilegustu bænda — en miklu meiri og alvarlegri tíðindi eru þó framundan.

Þá hefir og sjávarbændum verið íþyngt enn stórkostlegar, svo að hin allra alvarlegasta kreppa hefir yfir þann atvinnuveg dunið, með stöðvun atvinnuvegarins um tíma í haust, og nú þessa dagana standa allir bæjarbúar á glóðum vegna ólgunnar í bænum, sem hamingjan má vita, hvernig úr rætist. En horfur þess atvinnuvegar eru nú svo alvarlegar, að hingað inn á þing til okkar koma hvert af öðru vandræðaerindin, sem eru beinar afleiðingar þessarar óheillastefnu.

Það eru aðeins tvö ár síðan þessi stjórn tók við, — og hverskonar ár hafa það verið! Það hafa verið einhver hin bestu ár, sem yfir þetta land hafa komið. Og hvers mætti þá vænta um ástandið, ef vel hefði verið stjórnað? Það mætti vænta þess, að hjer væri alt í blóma, friður og hagsæld ríkjandi og framkvæmdahugur. En lítum á ástandið. Bændur hafa safnað skuldum í hundruðum þúsunda. Ungir bændur flosna upp og flýja sveitirnar. Framsóknarhugurinn er drepinn niður, og það er fyrirsjáanlegt, að ástandið verður enn verra. Útgerðin stöðvuð um hríð í haust og allir flutningar stöðvaðir nú og sú barátta háð hjer í bæ, sem enginn veit, hvað úr verður. Útgerðin hefir tapað stórkostlega og fyrirsjáanleg margföld töp, gjaldþrot og vandræði. Útgerðarmenn verða að koma til þingsins til þess að fá sjerstaka hjálp. Og vegna bankanna verður að gera alveg sjerstakar ráðstafanir, sakir yfirvofandi hættu. Það liggur í loftinu, að ríkið verði að taka á sig meiri fjárhagshættu en nokkru sinni fyr. Hvílík útkoma er þetta — eftir einmuna góðærin! Hvílík kaldhæðni örlaganna! Mjer verður að spyrja: Til hvers höfum við landsstjórn? Það á að vera til þess að stýra landinu til blessunar, snúa góðærunum til farsældar landi og lýð og koma í veg fyrir illar afleiðingar erfiðu áranna. Hvað hefir núverandi landsstjórn gert? Hún hefir snúið einhverjum mesta góðæriskafla, sem yfir þetta land hefir komið, í eitthvert hið mesta illæri. — Þess vegna er núverandi landsstjórn einhver hin ógæfusamasta stjórn, sem setið hefir á þessu landi — ógæfusamasta segi jeg, því að vitanlega dettur mjer ekki í hug, að hún hafi gert það vitandi vits.

Við hliðina á þessu hverfur alt annað á eldhúsdegi.

Sá maður, sem særður hefir verið holundarsári til ólífis, kvartar ekki um skeinur, þótt allmiklar sjeu á limum. Þetta inni jeg, að góðærinu var snúið í hallæri — jeg inni þetta eitt, sem er víg atvinnuveganna. Og þá er það eitt eftir, að rökstyðja það, að jeg lýsi víginu alfarið á hendur stjórninni. Jeg verð þar að segja nokkru meira en jeg hefi áður sagt um það mál. Jeg tel það skyldu mína gagnvart Alþingi að segja það, og jeg skal rökstyðja það, að landsstjórnin ber alla ábyrgðina. Hún getur ekki kastað henni yfir á þingið, því að hún vissi vel um ákveðinn og margyfirlýstan vilja þingsins um að fara varlega í gengishækkun; þótt það sje nú sjeð, að betra hefði verið, að þingmeirihlutinn hefði ekki trúað landsstjórninni til að fara eftir öðru en skráðum lögum. Þvert ofan í þingviljann er framkvæmd stjórnarinnar í gengismálinu. Og jeg skal nú rekja hvert af öðru atriðin, sem sýna, að landsstjórnin ber alla ábyrgðina.

Það hefir enn ekki komið fram, — en jeg býst við að allmargir háttv. þingmenn viti það. — hvað það var, sem hratt gengissveiflunni af stað í haust, þegar sterlingspundið fjell úr 26 krónum. Annar bankinn vildi halda áfram að kaupa erlendan gjaldeyri með 26 kr. verði á sterlingspundi, en landsstjórnin neitaði honum um loforð um þann styrk, sem þurfti til að gera það, og það er nú sannað að það var óhætt. Þá hófst gengishækkunin á ábyrgð landsstjórnarinnar. — Næst heimta báðir fulltrúar atvinnuveganna aukaþing, vegna neitunar landsstjórnarinnar um að stöðva hækkunina. Þeir voru skipaðir af Alþingi til þess að vera á verði atvinnuveganna vegna. Samróma kröfðust þeir þess, að þingið skærist í málið. Landsstjórnin tók á sig ábyrgðina að neita um það og halda áfram hækkuninni, óáreitt af þingviljanum. Þriðja atriðið er það að fulltrúi annars atvinnuvegarins bar fram tillögur til landsstjórnarinnar. samkv. löngunum um að stöðva hækkunina á ákveðnum stað. Fáir munn nú neita að betur hefði það verið gert. Reynslan er búin að skera úr að það var óhætt. En hæstv. stjórn neitaði og tók enn á sig ábyrgðina af að hækka og hækka.

Eitt hefir ekki verið getið um áður, en jeg tel það skyldu mína að geta um það. Landsstjórnin átti fulltrúa í gengisnefndinni, einn hinn besta starfsmann þessa lands og grandvarasta, en hann á því miður ekki sæti hjer. Hann sá, að of langt var gengið, og lýsti því yfir í nefndinni oftar en einu sinni. Hann gekk nauðugur til þessa leiks áfram, en lýsti því yfir, að hann gerði það samkv. vilja umbjóðanda síns. Enda var hægast fyrir landsstjórnina að skifta um mann, ef hann vildi eigi fara að vilja hennar.

Loks er það atriðið, sem oft hefir komið fram í umræðum um bankamál, að seðlabanki landsins á að bera ábyrgð á gjaldeyrisversluninni; en seðlabanki er enginn til í venjulegum skilningi. Seðlabankinn er hæstv. fjármálaráðherra sjálfur. Landsbankinn varð að líta á áhættu sína, þegar af þeirri ástæðu, að hæstv. fjármálaráðherra er seðlabankinn, — á honum hvílir ábyrgðin. Sá seðlabanki neitaði Íslandsbanka í upphafi um stuðning.

Jeg mun svo ekki rekja þetta lengur nje telja aðrar sakir. En jeg taldi mjer skylt að inna þessa sök, því að jeg var sjálfur þátttakandi í rekstri þessa máls, þótt jeg fengi minnu um það að ráða en skyldi. Flokkur sá, sem jeg starfa í, lítur svo á, að hjer sje um svo þýðingarmikið mál að ræða, að í raun og veru hverfi allar sakir aðrar við hliðina á afglöpum stjórnarinnar í því eina máli.

Svo vil jeg enda mál mitt með þeirri ósk, að Ísland sje ekki svo heillum horfið, að sjálft þing þjóðarinnar leggi blessun yfir það, sem hjer hefir gert verið, heldur geri þær ráðstafanir; er firri þingið því gengisleysi, sem síðasta þing því miður bakaði sjer og þjóðinni með lausatökum á þessu máli, vegna þess, að það trúði stjórninni helsti vel. Nú er hjer sú stofnun saman komin, sem vjer, fulltrúar atvinnuveganna í gengisnefnd, kröfðumst árangurslaust, að kvödd yrði saman í haust. Jeg vona, að stjórnin verði ekki látin einráð um það að stýra þjóðarskútunni norður og niður — svo sem nú hefir horft um hríð.