29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

85. mál, ríkisborgararéttur

Forsætisráðherra (JM):

Þetta mál hefir verið til umr. áður í þessari hv. deild, svo að óþarft er að tala um það nú. Hv. 4. landsk. (IHB) bar fram þáltill., eins og menn muna, um það, að þannig lagað frv. yrði lagt fyrir Alþingi. Var sú till. samþ., og er þetta frv., sem hjer er lagt fram, þess vegna fullnæging þeirrar till. Hygg jeg frv. í öllum verulegum atriðum vera eins og hv. flm. till. ætlaðist til. Vona jeg, að hv. deild geti áttað sig á málinu, og er það því hægara sem samskonar lög eru komin á um öll Norðurlönd. Er það heppilegt, að samskonar lög gildi hjá þjóðum, sem eru skyldar og eiga mikið saman að sælda.

Jeg fer ekki út í einstakar greinar frv. Markið er að gera konur í þessu efni jafnrjettháar sem karla, svo langt sem mögulegt er með því þjóðskipulagi, sem við búum við.