29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi nú raunar lítið að segja um þennan kafla fjárlaganna, sökum þess, að tiltölulega fáar af þeim till., sem hjer liggja fyrir, koma verulega við mínu ráðuneyti, nje eru þess eðlis, að þær hafi mikla fjárhagslega þýðingu.

Af till. háttv. fjvn. vil jeg aðeins minnast á till. 21,b á þskj. 184, um erfiðleikauppbót til Ögurþinga, ekki til þess að mótmæla henni, heldur vil jeg benda á það, að jeg teldi þann lið ekki eiga að standa í fjárlögum. Því ef þessa uppbót ber að greiða, þá ber að greiða hana úr prestlaunasjóði. Jeg hefi auðvitað ekkert á móti því, þótt atkvæði gangi nú um till., til þess að sýna vilja hv. þdm. um það, hvort þessa upphæð beri að greiða. En verði það samþykt, þá mun jeg síðar fara fram á það, að liðurinn verði tekinn út af fjárlögum og greiddur þaðan, sem hann ber að greiða.

Þá er í þessum kafla fjárlaganna sjerstaklega 18. gr., sem heyrir undir mitt ráðuneyti. Eru ýmsar till. frá hv. fjvn. og öðrum til viðbótar þeirri grein. Eru þær flestar eðlilegar og bygðar á nýjum ástæðum til þess að veita eftirlaun og ellistyrk þeim mönnum, sem till. greina. Þó er hjer eitt atriði í till. hv. fjvn., sem jeg vil gera að umtalsefni. Hún fer í 3 tilfellum fram á það að hækka upphæðir, sem áður hafa staðið í þessari grein og stjórnin tekur upp óbreyttar. Jeg játa það, að það geti verið rjett í einstaka tilfelli að gera slíkar breytingar á eftirlaunaupphæðum í 18. gr. En jeg tel varhugavert að fara að breyta til muna liðum, sem þar standa, því að þar má sjálfsagt einlægt finna fólk, sem hefði þörf á því að fá meiri styrk en því er þar ætlaður. En það ætti að vera föst venja, að slíkir styrkir yrðu fastákveðnir í eitt skifti fyrir öll, þegar þeir eru settir þar fyrst inn, og látnir halda sjer þar í samræmi við reglur um eftirlaun og ellistyrk, svo sem lög mæla fyrir.

Þá vil jeg aðeins minnast á aðra till., sem einnig snertir þennan lið. Það er till. á þskj. 230,XXXVI, frá hv. þm. Barð. (HK), og hefir hann enn ekki gert grein fyrir henni, en það er nýr liður, til prestsekkju. Jeg vil þá benda á það, að það eru til liðin fyrir utan 18. gr. fjárlaganna, þar sem fje er ætlað að nokkru leyti til styrktar prestsekkjum, en það er 14. gr. A, b, 3; þar eru ætlaðar 8 þús. kr. sem viðbót við eftirlaun þau, sem prestar og prestsekkjur njóta samkvæmt lögum. Jeg álít, að menn verði að hafa hliðsjón af þessari fjárveitingu, þegar á að meta það, hvort ástæða sje til þess að taka eitthvað af þessu fólki upp í 18. gr. Auk þess má nefna prestsekknasjóð. Jeg tel því í raun og veru ekki nægilega vel gengið frá þessum till. um að taka presta eða prestsekkjur upp í 18. gr., nema stjórninni eða hv. fjvn. hafi gefist kostur á að athuga, hvað hlutaðeigandi ber úr býtum af styrktarfje þessu.

Annars vildi jeg segja það alment um þessar fjárveitingar, að hv. deild ætti að fara sjerstaklega varlega í það að hækka þær fjárveitingar, sem af eðlilegum ástæðum verður að telja með árlegum útgjöldum, því með hækkun peningaverðsins má vænta þess, að nauðsynlegt verði að lækka að krónutali þær árlegu útgoldnu fjár hæðir, og er rjett að hafa auga á því í tíma, að slíkar fjárhæðir í fjárlögum geti fylgt því lögmáli, sem allir verða að lúta, að þær fjárhæðir, sem hver einstaklingur fær, verði að fara lækkandi að krónutali með hækkandi krónugildi.

Þá skal jeg minnast á eina brtt. háttv. fjvn., sem mjer virðist vera þess eðlis, að hana mætti skoða sem fordæmi til frekari fjárveitinga, svo hún geti haft fjárhagslega þýðingu fram yfir það, sem felst í till. sjálfri. Það er 44. brtt. á þskj. 184, um að kaupa tiltekinn skógarblett fyrir 4 þús. kr. Jeg er hræddur um það, að skógræktin verði fjárfrek, ef innleiða ætti þá reglu, að ríkið kaupi þau skóglendi, sem taka á til friðunar. Jeg held líka, að best sje þessu fyrir komið eins og skógræktarlögin mæla fyrir um friðun á skóglendi, að skógarnir haldi áfram að vera einstakra manna eign, en ríkið leggur til kostnað við girðingu og ræktun. Jeg álít því mikið æskilegra, að ekki sje verið að breyta út af þessu og kaupa þau skóglendi, sem ætti að rækta. En úr því jeg hefi gert þetta að umtalsefni, þá vil jeg geta þess, að eftir því sem jeg hefi litið til um þetta svæði, sem hjer er um að ræða, þá mun alveg ómögulegt að girða það; en á það er að líta, þegar úr því á að skera, hvort ríkið eigi að kosta þarna til skógræktar.

Þá hefir háttv. þm. Mýr. (PÞ) vísað til mín viðvíkjandi brtt. á þskj. 230,XXXII. um fjárveitingu til nafngreinds manns til þess að gera vindknúða rafmagnsstöð. Háttv. þm. (PÞ) lýsti allítarlega þeirri hugmynd, sem liggur hjer til grundvallar, og enda var hún mjer kunnug áður. Því að jeg hefi fyrir beiðni þessa manns látið í ljós álit mitt sem verkfræðings gagnvart hugmynd hans. Og jeg verð því miður að segja það, að hún er annaðhvort óframkvæmanleg með öllu, eða þá svo gífurlega kostnaðarsöm, að sú orka, sem þannig fæst, yrði þegar af þeirri ástæðu langt of dýr, samanborið við orku, sem fá má á annan hátt. Jeg get því ekki annað en ráðið hv. deild til þess að fella till. Jeg skal til gamans geta þess, að eftir lýsingunni á því geymslutæki utan um samanþrýst loft, sem fyrir þessum manni vakir, ef gefa ætti því fullkomna kúlulögun, sem er sú langsterkasta lögun til þess að varna því, að keraldið springi, þá yrði það eftir venjulegnm útreikningum að vera úr einni stálplötu a. m. k. þumlungsþykkri. En enginn vegur væri að nota steinsteypu fyrir þann þrýsting, sem hjer mun þurfa.

Um þetta efni liggur fyrir önnur uppástunga, sem er 49. brtt. nefndarinnar á þskj. 184, um styrk til þess að koma upp vindknúinni rafmagnsstöð. Jeg vil geta þess, að það hefir verið reynt hjer og reynst mjög örðugt að nota vindmótora. Þeir hafa allir orðið að lúta þeim örlögum, að þeir fengu ekki staðist þá stormvinda, sem hjer koma á stundum. Að vísu er enganveginn útilokað, að gera mætti nógu sterka vindmótora fyrir okkar veðurfar, og hefi jeg ekki á móti því, að það yrði reynt, ef háttv. deild vill samþykkja það. Háttv. frsm. (TrÞ) sagði, að ætlast væri til, að þessi vindknúða rafmagnsstöð yrði látin í tje hressingarhælinu fyrirhugaða í Kópavogi. En eftir till. er það dálítið óákveðið, hverjum eigi að veita fjeð. Eðlilegast væri, að hressingarhælið sjálft fengi þessa fjárveitingu, svo það gæti ráðið því, af hverjum stöðin yrði keypt og gæti gert þær kröfur um útbúnað, sem þurfa þætti til þess að tryggja það, að þetta yrðu ekki tóm vonbrigði. Hitt er ástæðulaust, að veita milligöngumanni seljanda slíkrar stöðvar styrkinn.

Þó mjer sje illa við allar heimildir til þess að ábyrgjast lán handa einum og öðrum, þá vil jeg þó ekki mæla á móti 67. till. nefndarinnar á þskj. 184, sem fer fram á að heimila stjórninni að ábyrgjast 40 þús. kr. lán fyrir h/f „Mjöll“. Eins og hv. frsm. (TrÞ) tók fram, þá er hjer aðeins um að ræða endurnýjun á ábyrgð, sem áður var gefin. En út af orðum hv. frsm. um, að ábyrgðin skyldi aðeins veitt gegn endurábyrgð Mýra- og Borgarfjarðarsýslna, þá vil jeg taka það fram, að jeg álít, að það eigi að vera ófrávíkjanleg regla, að annaðhvort ríkissjóður eða sýslufjelögin hafi veð fyrir ábyrgð sinni í fasteignum slíkra fjelaga eða fyrirtækja, þegar lán er veitt til þess að koma upp fasteign. Þetta hafa sýslufjelögin áður gert, og má svo vera. En ef þau gera það ekki, þá verður stjórnin að krefjast veðsins sjer til handa. Dæmi h/f „Mjallar“ sýnir ljóslega þessa nauðsyn. Þegar fasteignin brennur eða fer forgörðum, þá er aðgangurinn að vátryggingarfjelaginu fyrir veðhafa. En að öðrum kosti eiga allir skuldheimtumenn jafnan rjett tjl vátryggingarbótanna.

Hinsvegar vil jeg mæla á móti því, að samþykt verði sú ábyrgðarheimild, sem stendur á þskj. 230,XL, frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og háttv. 1. þm. N.-M. (HStef), þar sem ætlast er til þess, að stjórnin ábyrgist 25 þús. kr. lán til tóvinnufjelags á Reyðarfirði. Jeg álít, að fyrirtæki eins og þetta ætti að geta sett þær tryggingar fyrir lánsfje sem það fær og notar, að ekki þurfi ábyrgð ríkissjóðs. Og jeg er ekki viss um, að það sje heilbrigt að teygja menn út í fyrirtæki, sem ekki er betur fyrir sjeð en svo, að lán fáist ekki til þess nema ábyrgð ríkissjóðs komi til.