23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

85. mál, ríkisborgararéttur

Forsætisráðherra (JM):

Frv. þetta er fram komið eftir áskorun í þáltill. frá hv. efri deild. Slík lagasetning sem þessi er afleiðing af auknum rjettindum kvenna. Hjer er með löggjöf verið að veita þeim sjálfstæðari ríkisborgararjett en þær hafa haft hin síðustu ár. Það virðist sem sje ekki nema eðlilegt, þegar konur hafa yfirleitt fengið sömu rjettindi og karlmenn, að giftar konur íslenskar sjeu ekki lengur eins háðar erlendum mönnum sínum hvað þetta snertir eins og verið hefir.

Frv. þetta er sniðið eftir lögum nágrannaþjóðanna um þessi efni, og virðist það ekki nema heppilegt, að ríkisborgaralög vor, sem yfirleitt eru almenns eðlis, sjeu í samræmi við lög þessara þjóða hvað þetta snertir.

Vænti jeg þess, að hv. deildarmenn geti fallist á frv. óbreytt, en þó tel jeg rjettara að vísa því til nefndar, og geri þá að till. minni, að því verði vísað til hv. allshn., að umræðunni lokinni.