19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

2. mál, fjáraukalög 1924

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er altaf álitamál, hvað upp skuli taka í fjáraukalög og hvað ekki. Jeg hefi ekkert að athuga við breytingar þær, sem hv. fjhn. hefir gert. Jeg hefi tilhneigingu til þess að fara heldur lengra en skemra í því að taka fjárgreiðslur upp í fjáraukalög. Jeg er nú ekki með öllu viðbúinn að svara því, sem hv. frsm. fjhn. (JakM) mintist á. Viðvíkjandi sambandslaganefndinni, þá skildist mjer það ekki vera bein fyrirspurn, heldur nokkurskonar áminning um að greiða ekki meira en nauðsyn krefði til hennar. Jeg held, að þeir nefndarmenn, sem búsettir eru hjer, komist ekki hjá nokkrum aukaútgjöldum vegna veru dönsku nefndarmannanna hjer, þegar fundir eru haldnir hjer heima, til þess að halda uppi samræmi á framkomu nefndarhlutanna hjer og í Danmörku. Þá er ríkisráðskostnaðurinn, 2000 kr. Það er sama veiting og tekin var upp í fjárlögin 1925. Þá var þessi kostnaður hækkaður um 2000 kr. Allar sömu ástæður fyrir hækkuninni voru til staðar 1924. Því þótti stjórninni rjett að greiða þessa upphæð.