29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1927

Björn Líndal:

Jeg á hjer tvær litlar brtt. á þskj. 230, og um aðra þeirra, undir XX., er það að segja, að jeg ætla að taka hana aftur til 3. umr., en hin er XXXI. brtt., þar sem farið er fram á, að Kvenrjettindafjelagi Íslands sje veittur 1000 króna styrkur upp í kostnað við landsfund kvenna á Akureyri sumarið 1926. Það er sennilegt, að hv. deildarmönnum sje kunnugt um, að það stendur til, að konur haldi þar landsfund, sem þær svo kalla, og það er kunnugt, að áður hefir verið veittur styrkur til slíks fundar hjer í Reykjavík sumarið 1923. Það virðist vera einróma skoðun allra þeirra kvenna, er þann fund sóttu, að þær hafi haft mikið gagn af honum og ánægju. Nú er það tilætlunin, að þessi næsti fundur verði haldinn á Akureyri, og er vitanlega allmikill kostnaður við það, þó að gestrisni verði sýnd í fyllsta mæli. Slík gestrisni var sýnd hjer í Reykjavík á síðasta fundi. Aðkomukonur þurftu ekkert að borga fyrir dvöl sína hjer. Sömu gestrisni ætla nú Akureyrarkonur að sýna, en það er ýmislegur meiri kostnaður við slíkt fundarhald, bæði fundarhús o. fl., og er ekki þess að vænta, að konur geti lagt það af mörkum, og því síður að Akureyrarkonur sjeu færari um að leggja þetta af mörkum en Reykjavíkurkonur sumarið 1923. Samkvæmt dagskrá fundarins á að ræða á honum ýmisleg merk málefni, og jeg geri mjer sjerstaklega von um, að umræður og ályktanir um eitt þeirra komi að góðu gagni. Það er undirbúningur undir þátttöku íslenskra kvenna í þjóðhátíðinni 1930. Tel jeg, að það megi síst dragast lengur, að farið sje að hugsa fyrir því máli. Hjer er auk þess um svo litla fjárveitingu að ræða, að jeg vona, að háttv. deildarmenn láti sig ekki muna um að greiða henni atkvæði sín.