11.02.1926
Neðri deild: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

7. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (JM):

Frv. þetta er hv. deild talsvert kunnugt, og að vísu hefir það átt nokkuð misjöfnum viðtökum að mæta. En jeg vona samt, að það verði nú látið ganga fram. Jeg held, að alls vegna væri heppilegast að reyna að koma sjer saman um þetta. Hjer er ekki um neinn verulegan kostnaðarauka að ræða, en reynt að gera haganlegri og skýrari ákvæði um ýms atriði. Frv. hefir yfirleitt lítið verið breytt frá því, sem það var frá hendi mentamálanefndarinnar, sem upphaflega samdi það.

Mjer þykir ekki þörf á að tala frekar um þetta nú. Jeg skal aðeins geta þess, að mjer datt fyrst í hug að láta fylgja þessu frv. annað frv. frá sömu nefnd, um stjórn skólanna. Jeg hvarf þó frá því aftur, af því að mjer fanst þau ákvæði, sem það frv. hafði inni að halda, að ýmsu leyti ófullnægjandi. Jeg hygg, að hjer þyrfti sterkari yfirstjórn, helst sjerstakan mann, sem hefði yfirumsjón allra skóla landsins.

Jeg skal geta þess, að eftir að jeg hafði ákveðið að hætta við að leggja frv. fram, átti jeg tal um þetta atriði við yfirkennara Jón Ófeigsson, og var hann mjer sammála í þessu efni.