06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

7. mál, fræðsla barna

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. stjórn fyrir það að hafa borið fram frumvarp þetta.

Fræðslulögin frá 1907 sýndu það ljóst fram að ófriðnum mikla, að þau voru vel við hæfi landsmanna og fullnægðu þeim kröfum, sem til þeirra bar að gera. Hagskýrslur um barnafræðslu sýna það, að hjer tók það skemmri tíma en meðal annara þjóða að koma slíkri breyting í framkvæmd. Svo kom stríðið og þá kom afturkippur í þetta. Þá var hætt að reisa skóla og jafnframt dregið úr kenslunni. Á þeim tímum gerðu þeir einir till. um fræðslumálin á Alþingi, er vildu hopa frá því, er áður hafði gert verið. En þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er fyrsti votturinn um stefnubreytingu í þessu máli og ber vott um, að þingið vilji nú reyna að bæta þá höfuðgalla, er verið hafa á fræðslulöggjöfinni að undanförnu.

Að svo mæltu skal jeg minnast á nokkur helstu atriði í frv. sjálfu og áliti mentamálanefndar.

Árið 1922 var með lögum samþykt undanþága frá farskólaskyldunni og þar með geigað stórlega frá þeirri meginreglu, sem lögin 1907 voru bygð á, að hvert barn í landinu skyldi eiga kost á þeirri fræðslu, sem því væri nauðsynleg.

Það er nú að vísu svo, að kensla getur farið vel úr hendi, enda þótt ekki sjeu fastir kennarar, og jeg þekki að minsta kosti tvo hreppa, sem jeg treysti vel til slíks. Nefndin hefir því ekki viljað fella burtu undanþáguna, því að hún vill, að lögin hafi hann teygjanleik, sem nauðsynlegur er, og að þau sjeu löguð eftir þörfum landsmanna. Þau eiga að vera þannig, að þau kreppi að á sumum stöðum, en geti gefið eftir á öðrum.

Breytingartill. nefndarinnar 2. B. miðar að því að veita sjerstakt aðhald þeim skólahjeruðum, er undanþáguna vilja nota. En hjer er eins og annarsstaðar í frv. lagt mikið vald í hendur fræðslumálastjórnarinnar, þar sem henni er falið að ákveða, hvar skólaskylda skuli vera. Nefndin er þeirrar skoðunar, að þetta vald verði að leggja í hendur fræðslumálastjórnarinnar, því að það verður að gera ráð fyrir, að henni sje best treystandi til þess að sjá um góða framkvæmd fræðslulaganna.

Þá er brtt. nefndarinnar um kristindómsfræðsluna. Hygg jeg, að ef frv. verður samþykt með þeirri breytingu, þá sje það komið í það horf, sem því ber. Það eru margir kostir því samfara að hafa glögga verkaskiftingu milli presta og kennara um kristindómsfræðsluna. Og verkaskiftingin er þessi, að kennarar eiga að hafa með höndum hina sögulegu kristindómsfræðslu, en prestarnir trúfræðiskensluna. Býst jeg við, að hv. þdm. geti orðið sammála um að gera þessa breytingu, sem margir ágætir menn hafa lagt til, að gerð verði, enda væru þá lagafyrirmæli um þá kenslu komin í gott horf. Þessari breytingu ætti þó að sjálfsögðu að fylgja hitt, að kirkjunnar menn sjái sig knúða til að bæta um undirbúninginn undir ferminguna að því er kenslubækurnar snertir, kirkjan að vera einráð um það, því að jeg hygg, að það sje ekki vert, að hið háa Alþingi fari að skifta sjer af því, hverjar kröfur kirkjan vill gera til fermingarbarna. Þess vegna hefir nefndin ekki komið fram með neina brtt. í þá átt, en henni er ljóst, að víkja verður frá nokkrum þeim kenslubókum, sem nú eru notaðar, og semja nýjar. Treystir hún kirkjumálastjórninni vel til þess að sjá um það.

Þá kem jeg að því ákvæði frv., að ríkissjóður leggi fram 1/3 kostnaðar við byggingu skólahúsa utan kaupstaða. Þetta hefir verið svo áður í fjárlögum, en nefndin er öll sammála um, að þessu sje breytt þannig, að ríkissjóði sje jafnan skylt að greiða 1/3 hluta kostnaðar við byggingu skólahúsa, án tillits til þeirrar upphæðar í fjárlögum, sem til þess er ætluð. Þetta mundi valda nokkurri breytingu frá því, sem nú er, en hún hefir þó engan beinan útgjaldaauka í för með sjer. Niðurstaðan yrði sú, að sum árin yrði ríkissjóður að leggja fram meira fje en ætlað er í fjárlögum, en það jafnast þannig, að sum árin verður upphæðin minni en ætlað er. Og það er einmitt sjerstök ástæða til þess nú að veita öllum þeim hjeruðum, er þess óska, 1/3 kostnaðar við skólabyggingar, þar sem skólahúsbyggingar hafa nú legið niðri í 10 ár, svo að segja. Fræðslumálastjóri hefir skýrt frá því, að nú liggi fyrir 14 umsóknir í þessa átt, en öll fjárhæðin, sem fram á er farið, er þó ekki meira en 30 þúsund kr., og þegar það er borið saman við hitt, að hv. fjvn. vill verja 27 þús. kr. til nýbygginga á prestssetrum, þá er sú upphæð ekki gífurleg. Og þegar þess er ennfremur gætt, að ríkið hefir lagt fræðsluskyldu á herðar hjeraðanna, með sjerstökum skilyrðum um kenslustofur og lækniseftirlit, þá ætti ekki að standa á ríkinu að hjálpa hjeruðunum til þess að uppfylla þær kröfur, sem til þeirra eru gerðar. Og þar sem hjeruðin eiga sjálf að leggja fram 2/3 kostnaðar, er þeim það nægilegt aðhald til þess að flana ekki út í byggingar að óþörfu nje láta kostnað við þær fara fram úr hófi.

Þá er brtt. nefndarinnar 6. c. um kostnað við eftirlit og próf í skólunum, að hann verði greiddur af ríkissjóði, en ekki sveitarsjóði. Virðist það rangt að leggja það á hjeruðin, að þau hafi eftirlit með sjálfum sjer, enda hefir þessi kostnaður áður verið greiddur úr ríkissjóði.

Um skólanefndir hafa, verið gerðar nokkrar breytingar. Telur nefndin nægilegt, að 5 menn sjeu í skólanefnd í kauptúnum og 3 í sveitum. Nefndin getur fallist á þá breytingu stjfrv., að fræðslumálastjóri skipi formann nefndanna, því að það mundi skapa aðhald um það, að fræðsluskyldunni væri vel sint, og er þess ekki vanþörf sumstaðar.

Nefndin er þakklát hæstv. stjórn fyrir það, að frv. þetta á að tryggja það, að fræðslulágmarkinu sje alstaðar náð, og að fræðslumálastjóra sje gefið vald til að sjá um, að svo verði. Ratar frv. í þessu efni meðalveginn milli þeirra tveggja stefna, sem uppi hafa verið í skólamálunum, svo vel, að allir mega vel við una.

Nú sem stendur nær heimafræðslan til barna frá 8–10 ára, og á að hafa eftirlit með því, að hún sje framkvæmd. En skólaskylda nær til 10–14 ára barna, en þó á heimakensla altaf að vera við hlið hennar. Vil jeg hjer taka það fram, að það er fjarri sanni, er sumir halda fram, að heimafræðslan sje gefin upp. Það er sennilegt, að hvergi í Evrópu sjeu gerðar eins miklar kröfur til heimafræðslu eins og hjer á landi, og eins mundi verða, þótt þetta frv. yrði samþykt.

Það er aðalkostur þessa frv., að það skapar það aðhald, er nægja mætti til þess að lögin nái tilgangi sínum. Öll börn eiga heimtingu á fræðslu, og þann rjett verður að vernda. Misrjettið verður nóg síðar í lífinu, þótt það bitni ekki á mönnum á barnsaldri.

Jeg hygg, að enginn geti verið á móti þessu frv. nema þeir, sem vilja gera sig bera að því að vilja draga úr fræðslukröfunum, en jeg veit ekki til þess, að neinn vilji láta það um sig spyrjast, að lokum vil jeg geta þess, að nefndinni virðist svo, að verði frv. þetta samþykt, þá vanti lagabálk um skyldur og störf fræðslumálastjóra. Jeg býst við, að það sje eitt af því helsta, sem löggjafarvaldið gæti unnið barnafræðslunni til gagns, ef það setti lög um starfsvið og skyldur fræðslumálastjóra. Nú þegar eru til drög til slíkra laga í frv., sem milli þinganefnd um mentamál samdi. Vildi jeg bæði fyrir eigin hönd og mentmn. óska þess, að hæstv. stjórn legði slíkt frv. fyrir næsta þing. Jeg álít, að það eigi að vera stjórnin, sem ber fram slíkt frv., meðfram sakir þess, að jeg vil, að löggjöfin komist sem mest í það horf, að stjórnin beri fram frv., en ekki einstakir þm.

Þar sem þetta frv. er stjfrv. og fáar brtt. hafa fram komið við það frá einstökum þm., tel jeg það vitni um, að nú eigi að hefja nýja framsókn í kenslustarfseminni, til þess að það fje, sem veitt er til þeirra hluta, verði að sem bestum notum.