06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

7. mál, fræðsla barna

Jón Sigurðsson:

Jeg á eina litla brtt. við 7. gr., á þskj. 237, þar sem farið er fram á það, að ekki þurfi að sækja um leyfi fræðslumálastjóra til að hafa 8 vikna kenslu, þar sem staðhættir eru slíkir, að ekki verður hjá því komist að þrískifta kenslunni. Hv. nefnd vill einnig heimila þetta, en aðeins láta sækja um það til fræðslumálastjóra í hvert einstakt skifti. Jeg tel það algerðan óþarfa að viðhafa slíka skriffinsku, þar sem fræðslumálastjóri mun aldrei neita um slíka undanþágu, sje hún á viti bygð, og örðugt að ná saman nefndunum á tveim stöðum, nema með stórkostnaði. Vona jeg, að þessi litla brtt. finni náð fyrir augum hv. þd., og ræði ekki frekar um hana.

Þótt jeg hafi ekki borið fram nema þessa einu brtt., er jeg engan veginn allskostar ánægður með frv.; jeg er því ósamþykkur í ýmsum grundvallaratriðum, þótt jeg fari ekki út í það að sinni. — Jeg álít, að margar brtt. hv. mentmn. sjeu til bóta, og sumar til allverulegra bóta. En jeg verð að taka undir óánægjuna með þá brtt., að eigi þurfi heimild í fjárlögunum til þess að leggja megi úr ríkissjóði til byggingar skólahúsa. Jeg álít, að þingið eigi ekki að ganga inn á þá braut að afsala sjer rjettinum til að sníða fjárveitingar eftir ástæðum ríkissjóðs á hverjum tíma. Það hefir þegar verið gengið alt of langt inn á þá braut, og ættu hv. þm. að hugsa sig um, áður en þeir slá þetta vald úr hendi sjer frekar en orðið er.

Jeg vil ekki gera mikið úr því, þótt áætlað hafi verið, að 30 þús. kr. færu til skólabygginga. Við þekkjum líklega allir þessar áætlanir og hvernig þær hafa reynst; reikningum og bakreikningum stundum rignt að upp á marga tugi þúsunda. Nei, jeg held, að það sje ekki mikið leggjandi upp úr áætlunum byggingameistaranna, sem lagðar hafa verið fyrir þingið. — Hv. frsm. gat þess til samanburðar, að veita ætti 27 þús. kr. til byggingar í prestssetrum. En þetta fje er aðeins lánað og greiddir af því vextir.

Loks langar mig til að spyrja hv. frsm., hve því eigi að vera háttað, þegar talað er um, að fræðslumálastjórnin eigi að skipa formann skólanefnda. Á þessi formaður þá að vera búsettur í hjeraðinu, þar sem skólinn er, eða á það ekki að vera skylda? Þar sem þetta er ekki greinilega orðað, vil jeg skjóta því til hv. nefndar, hvernig hún lítur á þetta. Hefi jeg svo ekki meira að segja að sinni.