06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

7. mál, fræðsla barna

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg vil fyrst svara síðustu spurningu hv. 2. þm. Skagf. (JS). Það er auðvitað, að form. skólanefndar skal vera búsettur í skólahjeraðinu. Þetta er að vísu ekki skýrt tekið fram í brtt. mentmn., en jeg held, að það sje svo sjálfsagt, að ekki þurfi nema þessa athugasemd fyrir nefndarinnar hönd til að binda það fastmælum.

Um brtt. hv. 2. þm. Skagf. vil jeg geta þess, að nefndin heldur fast við sína tilhögun. Þetta er að vísu engan veginn stórt atriði, og alveg rjett, að skólanefndir hafa alveg eins góða aðstöðu til að vita þarfir hjeraðsins, hvort það þarf að hafa 2 eða 3 skólastaði. En það hefir viljað brenna við hjá einstaka hreppi, að meira hefir verið hugsað um, hvað væri ódýrast, heldur en það, hvað best væri fyrir barnafræðsluna. Mentmn. ætlast til þess, að fræðslumálastjóri geri sjer sem mest far um að athuga, hvort ekki sje mögulegt að tvískifta aðeins kenslunni, og að hann verði skólanefndunum til aðhalds í þeim efnum. — 8 vikna kensla er nokkuð lítið, enda er víðast kent 12 vikur, og stjfrv. gerði ráð fyrir að hafa hana altaf 12 vikur. Nefndin tekur undir það, að ástandið verði aðeins lakara, ef gerðar verða mjög einstrengingslegar kröfur í þessum efnum, og hefir því viljað leyfa undanþágu, þegar sjerstaklega stendur á.

Hið eina, sem mönnum virðist vera sjerstaklega illa við í brtt. nefndarinnar, er það, að framvegis verði fjeð, sem veitt er í fjárlögum til skólabygginga, aðeins áætlunarupphæð, en þingið ráði því ekki, í hve miklar framkvæmdir verði ráðist.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að það væri ekki víst, að þessi brtt. yrði til bóta, því að fjrh. myndi ekki greiða meira en í fjárlögum stæði. En jeg vil halda því fram um þessar áætlunarupphæðir eins og aðrar, að það verði borgað, sem eyðist, eins og t. d. þegar áætlað er um eyðslu á kolum og þess háttar. Jeg hygg, að um þessi framlög mætti einnig gera sæmilegar áætlanir, og ef brtt. mentmn. væri samþ., myndi fjrh. borga, ef ríkissjóði væri það ekki algerlega ofvaxið. Enda er varla hætta á, að mikið eyddist í þetta í slæmu árferði, heldur færi saman mestar kröfur og gott árferði, því að í hallæri gætu sveitirnar ekkert lagt fram sjálfar. Jeg held, að það væri einmitt þægilegt að gera fjárframlögin til þessara bygginga ójafnari en verið hefir. Hitt er náttúrlega ómögulegt að segja með neinni vissu, hve háar kröfurnar gætu orðið. Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hjelt því fram, að þær gætu orðið mjög háar, en jeg held, að þær verði það nú varla. Því að stærstu styrkirnir hlytu að verða til þorpa og kauptúna, en þau voru flest búin að koma sjer upp sæmilegum húsum fyrir 1914, og ættu þau að geta dugað enn um hríð. Umsóknirnar, sem koma á næstu árum, verða því sennilega allflestar frá þeim sveitum, sem hingað til hafa orðið að notast við stofur á bæjunum, en vilja nú byggja sjerstök hús, því að fólki er illa við að lána híbýli sín til barnakenslu.

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) gat þess, að 6 af hverjum 10 sveitum hefðu þegar komið sjer upp skólahúsum. Jeg geri ráð fyrir, að nálægt ¼ hluti muni aldrei koma sjer upp skólahúsum, svo að munurinn verður ekki svo mikill fyrir ríkissjóð, hvort það eru 6 eða 8 af hverjum 10 hjeruðum, sem hafa bygt.

Hv. 2. þm. Skagf. varaði menn alvarlega við byggingameisturunum og lagði áherslu á, hve lítið væri að marka áætlanir þeirra. Jeg vil nú ekki rengja hann neitt sjerstaklega í þessu, en vil aðeins segja það, að hjer er um svo smáar fjárhæðir að ræða, að það getur aldrei munað miklu. Mörg eða flest skólahúsin kosta þetta 3–5 þús. kr., og þegar framlag ríkissjóðs er aðeins 1/3 hluti, verða það ekki nema 1–2 þús. úr ríkissjóði. Það er annað mál, þótt menn sjeu deigir við járnbrautir og önnur miljónafyrirtæki og sjeu þar hræddari við áætlanirnar.