06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

7. mál, fræðsla barna

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af ummælunum um 5. brtt. hv. nefndar, sem fer fram á að fella úr 14. gr. orðin: „af því fje, sem veitt er í fjárlögum ár hvert“, vil jeg leyfa mjer að segja, að þessi brtt. er ákaflega ómerkileg og þýðingarlítil. Því að þessi lög geta á engan hátt breytt ákvæðum 37. gr. stjórnarskrárinnar, um það, að ekki megi gjalda annað fje úr ríkissjóði en heimilað sje í fjárlögum eða fjáraukalögum ár hvert. Það eina, sem mætti segja, er, að ef þessi brtt. væri samþ., hefði þingið veikari aðstöðu til að finna að við ráðherra; þótt hann færi út fyrir fjárlögin. En jeg lít svo á, að ef fjárveitingin er nú tekin upp í fjárlögin, hvort sem hún er há eða lág, hafi stjórnin sömu skyldur til að halda sjer við þá upphæð, alveg án tillits til þessarar brtt., og megi ekki taka upp þá reglu að greiða alt, sem farið er fram á, án þess að þingið fái að leggja þar orð í belg. — Þó að jeg gæti nú ekki haft á móti slíku auknu valdsviði fyrir núverandi stjórn, þá vil jeg þó enganveginn mæla með till. þessari.