06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

7. mál, fræðsla barna

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er að vísu rjett hjá hv. 2. þm. Skagf. (JS), að brtt. hans verður minni, þar sem fræðslumálastjóri á fulltrúa í skólanefndum. En hitt er ekki rjett, að það, sem mentmn. heldur fram, verði ekki það hentasta í þessum sökum.

Því skal ekki neitað, að skólanefndirnar munu oft hafa næga staðarþekkingu til að bera. En þær vilja bara ekki altaf hið besta, heldur hið billegasta. Og hefir þetta oft legið hjer í landi. Þess vegna virðist rjettast, að úrskurðarvaldið sje hjá fræðslumálastjóra. Skal jeg svo láta útrætt um þetta.

Að vísu er það rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að þetta eru aðeins einföld lög. En það gerir þó ekki það að verkum, að brtt. 5 á þskj. 146 kunni að verða þýðingarlaus eða áhrifalaus með öllu. Því að ef tillagan verður samþykt, þá er það víst, að stjórnin mun setja í fjárlögin áætlunarupphæð eftir tillögur fræðslumálastjóra og samkvæmt aðfengnum skýrslum. Og aðalbreytingin yrði þannig, að meira tillit yrði tekið til fræðslumálastjóra og álits hans en áður hefir verið. Í ár hafa t. d. óskir fræðslumálastjóra ekki verið teknar til greina nema að litlu leyti. En með samþykt tillögu nefndarinnar eru miklar líkur til, að þetta breytist til batnaðar, og þá er tillagan alls ekki þýðingarlaus.

Það er ekkert á móti því, að ýmsar fjárupphæðir sjeu lögbundnar með almennum lögum. Auðvitað er hægt að neita þessum lögum um rjett sinn. En það er bara ekki gert. Jeg skal aðeins nefna kostnaðinn af jarðræktarlögunum. Hann mun vera áætluð upphæð. En skyldi stjórnin ekki sinna þeim kröfum, er þar koma fram, og borga út eftir gjaldþoli ríkissjóðs? Jeg býst við því.

Annars skal jeg ekki þrátta meira um þetta, og er því útrætt um það af minni hálfu og nefndarinnar.