06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

7. mál, fræðsla barna

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg held, að ómögulegt sje að fá það út úr 14. gr. frv. með brtt. nefndarinnar, að ríkisstjórnin sje bundin til að fara eftir till. fræðslumálastjóra um framlög á þessum lið fjarlaganna. Það væri þá fremur hægt að hugsa sjer það, eins og háttv. frsm. (ÁÁ) sagði síðast, að tillagan þýði það, að umræddur liður í fjárlögunum verði skoðaður sem áætlunarliður. (ÁÁ: Hvorttveggja). Nei, alls ekki hvorttveggja. Stjórnin hefir óbundnar hendur gagnvart tillögum þeim og skýrslum, er hún útvegar sjer við samning fjárlagafrv., hvort sem þær eru frá fræðslumálastjóra eða öðrum. Nema þá að sjerstaklega sje ákveðið með lögum, að hendur hennar skuli vera bundnar. En því er ekki hjer til að dreifa. Er þetta því nokkuð hæpin skýring hjá nefndinni eða háttv. frsm. (ÁÁ).

Greinin gerir ekki annað en að ákveða hlutfallið á milli þess, sem ríkissjóður á að greiða annarsvegar, en sveitarsjóður hinsvegar. En það er aldrei vant að skoða slíkar fjárveitingar sem áætlunarupphæðir. Það er eðlilegt, að fjárveitingar til þeirra mannvirkja, sem ætlast er til, að lokið sje við fyrir fjárveitinguna, sjeu skoðaðar sem áætlunarupphæðir. En jeg veit ekki, hvort unt er að skoða slíkar fjárveitingar, til að byggja fyrirfram óákveðna tölu barnaskólahúsa, sem áætlunarupphæðir.

Jeg held, að það færi illa á því, ef stjórnin teldi sig hafa úbundnar hendur um þennan lið. Ef kæmi t. d. fram í þinginu tillaga um hækkun á liðnum, sökum mikillar eftirspurnar, en væri feld af fjárhagsástæðum, þá hefði stjórnin alveg eins slæma aðstöðu til þess að verða við beiðnunum, þó að þessi brtt. yrði samþykt.