29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get ekki annað en lýst ánægju minni yfir ýmsu. Fyrst og fremst því, hversu umræða þessi virðist ætla að ganga fljótt, þó það í sjálfu sjer sje ekkert undarlegt, því eins og jeg gat um í fyrri ræðu minni, eru brtt. þær, sem fyrir liggja, miklu færri en í fyrra, og sömuleiðis eru fjárhæðirnar miklu minni.

Í öðru lagi get jeg verið þakklátur fyrir þær undirtektir, sem brtt. fjvn. hafa fengið, því að hjer hefir hver af öðrum staðið upp til þess að ljúka lofi á fjvn. Einn reyndasti og elsti þm. deildarinnar, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sagði t. d., að nefndin hefði siglt meðalveg milli skers og báru. Slík ummæli, og það frá þessum þm., þykja mjer mikils virði.

Skal jeg þá snúa mjer að hæstv. landsstjórn og víkja fyrst máli mínu að hæstv. forsrh. (JM).

Hann ljet í ljós ánægju sína yfir mörgum tillögum nefndarinnar, en mælti þó gegn tveimur. Fyrst og fremst tillögunni um að fella niður fjárveitingu til að malbika mentaskólagarðinn. Er hjer um smátt mál að ræða, sem jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um framyfir það, sem jeg hefi áður sagt, en af öðru er það ljóst, að það er síður en svo, að fjvn. vilji sýna þessum skóla kulda. Ennfremur mælti hann gegn till. nefndarinnar um að fella niður ferðastyrk til útlanda. Hann sagði meðal annars, að oft kæmu til þingsins beiðnir um utanfararstyrki. Gæti það því verið til þess að spara umræður á þingi að hafa eina vissa upphæð í fjárlögum í þessu skyni. En jeg lít ekki eins á þetta mál. Jeg er hræddur um, að beiðnir um utanfararstyrki kæmu eigi að síður til þingsins. Að minsta kosti höfum við hliðstætt dæmi, þar sem skáldin og listamennirnir eru. Um styrki til þeirra er altaf verið að rífast, þó að sjerstök upphæð sje ætluð til þeirra í fjárlögum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) kom að því atriði, er margt mætti um segja, að varasamt væri að taka alment fasta liði inn í fjárlögin, þegar peningar væru hækkandi. Þetta er alveg rökrjett hugsun frá hans sjónarmiði og þeirra, sem vilja hækka verðgildi peninga. En jeg verð að segja það, að mjer finst hæstv. fjrh. þá ekki nógu strangur við sjálfan sig í þessu efni, og vil jeg um það benda til þess, hvernig hann hefir snúist við því frv. hjer á þinginu, er mest fjárframlög hefir í för með sjer. Jeg á þar við járnbrautarmálið.

Þá vjek hæstv. fjrh. að till. um að kaupa Sigríðarstaðaskóg í Ljósavatnsskarði og taldi það óheppilegt fordæmi, ef gert yrði. Þar til er þess að geta, að þetta er ekkert fordæmi, því að ríkissjóður hefir áður keypt skóga, svo sem Vaglaskóg, ásamt jörðinni, og Hálsskógur var tekinn undan prestssetrinu, með eftirgjaldslinun, er svara mundi 2000 kr. verði á skóginum. Hæstv. ráðh. (JÞ) vjek að því, að löggjöfin muni bygð á því, að skógar ættu að vera einstakra manna eign, en ríkið ætti að veita styrk til girðinga, um þá. Þar er fjvn. á öðru máli. En út af því, sem hæstv. ráðh. (JÞ) sagði um girðingu umhverfis Sigríðarstaðaskóg, þá liggja fyrir upplýsingar frá hv. þm. S.-Þ. (IngB) um það, að mjög þægilegt mun að girða skóginn og kosta afarlítið, því að hann er sjálfvarinn á einn veg.

Þá taldi hæstv. ráðh. (JÞ) vafasamt um notkun vindmótora hjer á landi. Hann hefir þar meiri þekkingu en jeg, en fjvn. hefir ekki stigið stórt spor í því efni, þar sem hún hefir aðeins viljað styrkja einn af þeim þremur, er sótt hafa um styrk til að koma upp slíkum aflgjöfum. Till. hennar er ekki bundin við nafn, og er það því á valdi hæstv. stjórnar, hverjum hún vill veita þetta fje.

Út af ábyrgðinni fyrir „Mjöll“, þá er nefndin ekki á móti því, sem hæstv. ráðh. (JÞ) sagði, að ríkið yrði að hafa bakveð í fasteignum. Og í þessu tilfelli er það svo, að fasteign fjelagsins er að bakveði hjá sýslunefndum, og er því ekkert að athuga í þessu tilfelli.

Þá skal jeg lýsa afstöðu nefndarinnar til hinna ýmsu brtt. einstakra þingmanna, og tek þær í þeirri röð, sem þær koma fyrir við atkvæðagreiðslu.

Það eru þá fyrst tvær till. frá hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vegna mentaskólans. Hv. þm. (MJ) sagði, að sá skóli væri olnbogabarn hjá fjvn., en jeg vona, að hann sansist á, að svo er ekki, þegar hann athugar málið betur, því að ekkert lá fyrir fjvn. um þessi atriði, sem hann ber fyrir brjósti. Nefndin hefir viljað styrkja Akureyrarskólann til þess að kaupa skuggamyndavjel, og hún vill líka styrkja mentaskólann til þess og er því þeirri till. meðmælt.

Nefndinni bárust brjef frá rektor mentaskólans og landlækni um að fje yrði veitt til þess að setja miðstöðvarhitun í mentaskólahúsið, en þeim fylgdi engin áætlun um kostnað. Nú hefir hv. 4. þm. Reykv. komið með áætlun, sem hann las hjer upp með miklum fjálgleik og af miklum lærdómi, eins og hans er siður. Nefndin getur fallist á, að að þessu yrði sparnaður og auk þess minni eldhætta, en húsakynnin hollari á eftir fyrir nemendur, og er hún því brtt. meðmælt. Hefir hv. 4. þm. Reykv. því enga ástæðu til að kvarta undan undirtektum fjvn.

Þá eru 3 brtt. frá fjárhagsnefnd, en um þær þarf ekki að ræða, því að þær hafa verið teknar aftur til 3. umr.

Þá kemur hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) með brtt. um Staðarfellsskólann. Þegar fjvn. hjelt síðasta fund sinn, hafði flm. (JAJ) ekki talað fyrir þessum till. sínum, og get jeg því ekki lýst afstöðu nefndarinnar til þeirra, en eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, mun jeg mega fullyrða, að meiri hluti nefndarinnar er brtt. fylgjandi. Tvær fyrri till. eru endurveitingar, og er því ekki nema eðlilegt, að meiri hluti nefndarinnar, sem samþykti þær í fyrra, samþykki þær nú. Jeg skal og segja fyrir mitt leyti, að jeg er fylgjandi því, að Sigurborgu Kristjánsdóttur verði veitt uppbót sú, sem farið er fram á. En jeg skal ekkert blanda mjer inn í deilur þeirra hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. þm. Barð. (HK). Þær komu engum á óvart, því að hv. þm. Barð. hefir jafnan verið á móti þessum skóla.

Þá er brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (SvO) um Eiðaskólann, að alt að helmingi fjárins megi verja til verðlauna handa nemendum. Er brtt. þessi komin fram eftir ósk skólastjóra, og getur meiri hluti fjvn. fallist á hana.

Þá er brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. þm. V.-Sk. (JK) um styrk til að rita menningarsögu. Slíkt erindi lá fyrir fjvn. og er henni því kunnugt. Meiri hluti fjvn. er eindregið á móti þessari brtt. og lítur svo á, að þetta megi gera með frjálsum samtökum og ekki þurfi sjerstakan styrk í þessu skyni. Er nefndinni og kunnugt, að sjera Jónas Jónasson frá Hrafnagili safnaði miklu án þess að fá nokkurn styrk til þess.

Þá er brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um hækkaðan styrk til Leikfjelags Reykjavíkur. Fjvn. hafði fengið sömu upplýsingar um þetta efni og hv. flm. (JakM) bar fram, en nefndarmenn hafa óbundnar hendur um það, hvernig þeir greiða atkvæði um brtt.

Þá er og brtt. frá hv. þm. Ak. (BL) um styrk til leikfjelagsins þar, en hún er tekin aftur til 3. umr., og skal jeg því ekki ræða um hana.

Þá er brtt. frá háttv. 1. þm. S.-M. um styrk handa Þórarni Jónssyni tónlistarnema. Fjvn. hefir kynt sjer málið, og er meiri hluti hennar á móti því, að þessi styrkur sje veittur.

Þá kemur hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) með unga leikkonu, sem hann ber fyrir brjósti. Hæstv. forsrh. (JM) og fleiri hafa mælt með þessari brtt. Geri jeg ráð fyrir, að viðkomandi njóti þar að ættar sinnar, og hefir meiri hluti fjvn. hnigið að því að styðja brtt.

Þá er brtt. undir tölulið XXIII, frá hv. 3. þm. Reykv., um styrk handa 5 listamönnum. Jeg ætla, að fjvn. hafi haft umsóknir frá þeim öllum, en þóttist ekki geta borið neina þeirra fram. Um alla 4 síðustu liði brtt. er það að segja, að meiri hl. nefndarinnar er á móti þeim, en hann er aftur á móti meðmæltur 1. liðnum, styrk til frú Soffíu Kvaran.

Fjvn. getur ekki liðsint styrkbeiðni Jóns Stefánssonar málara, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) mælti fyrir.

Viðvíkjandi styrk handa Jóni Þorleifssyni málara hefir fjvn. óbundnar hendur um atkvæðagreiðslu, og sama máli er að gegna um styrkveitingu handa Karli Runólfssyni hljómlistarnema.

Háttv. þm. Barð hjelt snjalla og skemtilega ræðu um það, að fella niður styrk Þórbergs Þórðarsonar, en háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) vill aftur á móti hækka þann styrk og mælti mikið með brtt. sinni. Jeg skal ekki blanda mjer í þær deilur og fjvn. mun láta afskiftalaust, hvort styrkurinn er hækkaður eða feldur. En jeg verð að segja það, að mjer finst skrítið, að hv. þm. Barð. skuli vega í þann knjerunn, svo „merkur maður“ sem hann er, en jeg hygg, að hann hafi haldið ræðu sína fremur til þess að skemta okkur heldur en að honum hafi verið alvara. (HK: Þórbergur segir um prestana: Vel ykkur, þjer hræsnarar!). Jú, Þórbergur segir margt um prestana og stjórnmálamenn.

Háttv. 3. þm. Reykv. ber fram brtt. um að hækka styrk til Guðbrands Jónssonar, en það ræður af líkum, að fjvn. getur ekki fallist á þá brtt., þar sem hún hefir lagt til, að styrkurinn yrði feldur niður. Hv. flm. vjek að því, er jeg sagði um samkonar ritstyrksbeiðni, og kvað það ekki saman berandi, því að þeir menn, sem jeg þar nefndi, væru á föstum launum, en Guðbrandur Jónsson ekki. Jeg er nú á þeirri skoðun, að síður beri að líta á þörf manna í þeim efnum en hæfileika, en jeg skal þó geta þess, að fjvn. var ekki alveg óskift um að vilja fella þennan styrk niður.

Um brtt. hv. 4. þm. Reykv., að veita. dr. Guðm. Finnbogasyni ritstyrk, hefir fjvn. óbundið atkvæði.

Aftur er mikill meiri hluti nefndarinnar á móti því að veita cand. mag. Birni K. Þórólfssyni styrk til að kynna sjer skipulag og vinnu í skjalasöfnum erlendis. Umsókn þessi hefir legið fyrir nefndinni, en nú hefir hv. þm. V.-Sk. tekið hana upp á sína arma.

Um brtt. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um hafskipabryggju á Ísafirði, þá var það samþykt í raun og veru við umræðu fyrri kafla fjárlaganna.

Þá hafa þrír þm. Vestfirðinga (ÁÁ, JAJ og SigurjJ) komið fram með brtt. um það, að veita Guðmundi Jónssyni frá Mosdal styrk þann til námsskeiða í handavinnu er áður hafði ungfrú Ásta Sighvatsdóttir. Þetta kom til orða í fjvn., en þá stóð á því, hvort Ásta mundi verða kyr við skólann á Blönduósi. Nú eru fengnar upplýsingar um það, að hún verður þar kyr, og þess vegna hefir meiri hluti fjvn. fallist á þessa. brtt., og get jeg fyrir mitt leyti mælt hið besta með henni, því að mjer er þessi maður kunnur að því að vera listamaður og áhugasamur.

Þá er brtt. frá hv. þm. V.-Sk. um styrk handa Kvenfjelagi Hvammshrepps til handavinnukenslu. Meiri hluti nefndarinnar getur þar aðhyllst varatill.

Brtt. frá hv. þm. Ak. og hv. 1. þm. N.-M. um styrk til Kvenrjettindafjelagsins getur meiri hl. nefndarinnar ekki aðhyllst.

Þá er brtt. hv. þm. Mýr. (PÞ) um styrk til Jóns Helgasonar í Borgarnesi. Erindi þetta lá alls ekki fyrir fjvn., en mjer skildist á ræðu hv. flm., að hjer sje um frumlega íslenska uppgötvun að ræða, þótt jeg geti ekki dæmt um þau vísindi. En eins og tekið er fram áður, þá álítur fjvn. nægilegt að styrkja eina tilraun í þessa átt, og getur því ekki fallist á þessa brtt.

Brtt. um hækkaðan styrk til Þórðar Flóventssonar er svo smávægilegt atriði, að jeg hygg, að meiri hluti fjvn. geti aðhyllst varatill.

Fyrir nefndinni lágu gögn um fossana í Norðurá, sem hv. þm. Mýr. vill láta gera laxgenga, og voru þau fyllri en þau gögn, sem lágu fyrir nefndinni í fyrra. Þessi till. var samþykt í fyrra, og fjvn. er því meðmælt að hún verði samþykt nú, enda er fordæmi um slíkt áður úr Borgarfjarðarsýslu.

Þá er brtt. háttv. þm. Borgf. um eftirgjöf á dýrtíðarláni. Þótt líta megi svo á, að brtt. þessi sje fallin með umr. við 1. kafla fjárlaganna, verður henni víst haldið fram og vill meiri hl. nefndarinnar mæla í móti henni. Jeg vil minna hv. deild á, að ef þetta verður eftirgefið, þá verða fleiri að koma á eftir. Þá munum við hv. þm. N.-Ísf. koma með samskonar brtt. fyrir okkar kjördæmi, og svo mun um einhverja fleiri, og verði þetta samþykt, er hv. deild siðferðilega skyldug til þess að gefa eftir aðrar samskonar skuldir.

Hv. þm. Barð. hefir tekið aftur brtt. sína undir tölulið XXXVI til 3. umr. Hv. 2. þm. Eyf. lagði fram skjallega sönnun um það, að til væri ein „jubil“ljósmóðir enn, sem ekki hefði fengið viðurkenningu, og hv. 2. þm. Rang. tilkynti, að önnur væri á uppsiglingu, sjálf ljósmóðir aldursforseta þessarar hv. deildar. Fjvn. hefir óbundin atkvæði um þessa brtt.

Þá er brtt. frá hv. þm. V.-Sk. um lán til Mýrdalshjeraðs. Um þetta efni lá ekkert fyrir fjvn. (JK: Jú). Nú, það getur verið, að mig misminni það, en fjvn. getur ekki mælt með brtt.

Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að öll nefndin er með brtt. hæstv. atvrh. um að greiða halla þann, er verða kann af tilraunum með að senda frosið kjöt á erlendan markað.

Hv. þm. Múlsýslunga (HStef og SvÓ) bera fram brtt. um lán til tóvinnuvjela í Reyðarfirði. Jeg minnist þess ekki, að neitt lægi fyrir um þetta hjá nefndinni, en nú hefir hæstv. fjrh. mælt í móti því, að þetta lán verði veitt. Það hefir legið fyrir áður, en fjvn. hefir óbundnar hendur um atkvæðagreiðslu.