04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

7. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (JM):

Það má má vel vera, að það sjeu ekki gerðar neinar breytingar á aðalatriðum frv. hjá nefndinni. Það var heldur ekki í hv. Nd., aðeins aukaatriðum breytt. Jeg skal ekki segja, að jeg hafi verulega mikið á móti þessum breytingum í sjálfu sjer. En eins og menn vita, er sennilega nokkuð liðið á þingtímann, og væri því æskilegt, að þær breytingar, sem ekki eru alveg nauðsynlegar, verði ekki gerðar, til þess að ekki þurfi að senda málið oft milli deilda. Jeg hefði gjarnan viljað óska þess að vita, hvort nefndin í Nd. myndi vera samþykk þessum brtt. Jeg þóttist verða var við, að það væri tilgangurinn að bera sig saman við hana. Mjer er reyndar kunnugt um, að nokkrar brtt. eru býsna mikil þyrnir í augum sumra nefndarmanna í hv. Nd. Jeg hygg það megi fullyrða, að nefndinni þar þyki ekki ástæða til, að 1. brtt. nái framgangi. Sama hygg jeg eigi sjer stað um 2. brtt., að hún álíti, að ákvæðin eigi að vera nokku fyllri en hjer er ætlast til.

Það, sem jeg sjerstaklega legg áherslu á, er þetta, að það hefðu ekki þurft að koma inn þær breytingar, sem gera örðugleika á, að þetta mál fái framgang. Annars held jeg sje óhætt að segja, að þessar breytingar sjeu ekki það miklar, að það sje að öðru leyti ástæða til að mæla á móti þeim.

Fyrir utan það, að mjer er kunnugt um, að nefndin í Nd. álítur 1. brtt. óþarfa. vil jeg geta þess, að það er líklega töluvert efasamt, að það verði svo auðvelt að fá börn, t. d. í kaupstöðum, til þess að lesa þannig þrjár helstu Íslendingasögurnar, að þau geti sagt frá efni þeirra í aðaldráttum. Og svona lestur utan skólans finst mjer ætti ekki að heimta í barnaskólum. Það getur líka verið mjög örðugt um tíma og tækifæri til þess á heimilunum að lesa þrjár Íslendingasögur. Þar að auki er þetta það atriði, sem sennilega væri þá fremur fræðslustjórna hlutverk að gefa ákvæði um. Að minsta kosti álítur svo einn af fróðustu mönnum í mentmn. Nd.

Jeg skal svo aðeins láta þess getið um síðustu brtt., að það tel jeg ekki víst, að börn eins og þar er lýst geti einu sinni lært lestur og skrift. Þau geta verið svo óhæf til náms, að þau geti ekki lært svo mikið sem lestur og skrift.