04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

7. mál, fræðsla barna

Einar Árnason:

Jeg skal ekki tala langt mál um þetta. Yfir höfuð tel jeg, að þetta frv. sje til mikilla bóta við þau fræðslulög, sem nú gilda. Og jeg teldi það skaða, ef frv. næði ekki framgangi á þessu þingi. En það hafa komið hjer fram nokkrar breytingartill. frá hv. mentmn., sem gera það að verkum, ef samþ. verða, að frv. verður aftur að fara til Nd. Þar sem komið er nú að þinglokum, er hugsanlegt, að málið kunni að daga uppi, ef það þarf að hrekjast milli deilda.

Þessar brtt. eru yfir höfuð ekki stórvægilegar að efni til. Þær ganga flestar í þá átt að taka skýrar fram og sjerstaklega að bæta við þær kröfur, sem gerðar eru um það, hvað börnin eiga að læra í skólunum. Jeg held satt að segja, að það mundi ekki skifta miklu máli, hvort kröfurnar eru gerðar víðtækari en þær eru í frv. eða ekki. Ef of langt er gengið í því efni, þá verður þetta vitanlega brotið að meira eða minna leyti. Jeg tel hætt við, að undir sumum kringumstæðum sje frekar gengið of langt en of skamt í að heimta þekkingu hjá börnum í margvíslegum atriðum. En hvað börn læra í skóla, er fyrst og fremst undir þeim sjálfum komið og í öðru lagi undir kennurum, en ekki undir þeim reglum, sem settar eru um skólana.

Það er margt, sem ber til þess, að það er töluvert örðugt að gera börnin fróð um ýmsa hluti. Og það er svo um alla skóla, og þá alls ekki síður kaupstaðarbarnaskóla en sveitaskóla, að það virðist svo, að fræðslan fari oft og tíðum fyrir ofan garð og neðan hjá börnunum. Það var t. d. hjer í barnaskóla Reykjavíkur prófspurning í landafræðitíma um það, hvar París væri. Jú, mörg börnin svöruðu, að París væri á Laugaveginum, og sum gátu sagt, hvort hún var innarlega eða neðarlega á Laugaveginum. Fyrir stuttu átti einn maður tal við nokkur börn hjer uppi við Skólavörðu; spurði hann þau meðal annars að því, hvort þau gætu sagt sjer, hvar Esja væri. Nei, þau vissu ekkert um Esjuna. Svo spurði hann um fleiri einstaka hluti, sem þau gátu ekki svarað. Þá fór hann að leitast fyrir um það á hvaða sviði þeirra skilningur og hugsun væri, því að börnin voru alls ekki ógreind. Og það, sem þau gátu skýrt frá var mjög nákvæmlega um alla bílana í Reykjavík og hvar bíóin væru.

Þetta sýnir, að það er ekki undir reglugerð skólans komið, hvað börnin læra og hvað þau ekki læra.

Annars myndi jeg ekki telja, að þessar brtt. spiltu frv. neitt, þótt samþyktar yrðu. En mjer finst vafasamt, að það sje rjettara að senda málið aftur til hv. Nd. þeirra vegna.