04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

7. mál, fræðsla barna

Frsm. (Jónas Jónsson):

Út af ræðu hæstv. forsrh. (JM) vildi jeg taka það fram. — sem jeg þó hefi áður gert, — að við í mentmn. höfum flýtt okkur með frv. eins og frekast er hægt að búast við með stórt mál. Jeg verð að segja, að mjer finst það dálítið hart, þegar Nd. skilar frv. eins og þessu, sem lagt var fyrir hana í þingbyrjun, ekki fyr en undir þinglok, ef ekki á að athuga málið af viti í Ed., en ganga að frv. eins og það er, af því að hv. Nd. vill svo vera láta. Er þetta eitt með öðru sterk sönnun fyrir því, að þingið ætti ekki að vera nema ein deild. En svo framarlega sem gagn er að því að hafa þingið skift, þá er það skylda hvorrar deildar að athuga málin. Við höfum ekki farið fram á annað en það, sem er frambærilegt og hv. Nd. hefði gott af að athuga það. Þetta er hreint og beint ofríki frá Nd., sem jeg get ekki sætt mig við.

Hæstv. ráðh. (JM) sagði, að till. væru ekki alveg nauðsynlegar. Jeg get þó ímyndað mjer, að margt í 1. brtt. sje eins nauðsynlegt og hverjar aðrar línur í öllu frv. En af því, sem hæstv. forsrh. sagði, get jeg helst sætt mig við til samkomulags við háttv. Nd., að halda ekki fram til streitu breytingum við 4. lið. Þó er enginn vafi, að við höfum á rjettara að standa. En það er búið að misbjóða börnum svo lengi í skólum með þessu, að það gerir kannske ekki til, þótt það eigi sjer stað einu ári lengur.

Ekki hefi jeg getað sannfærst af því, sem hæstv. ráðh. hefir haft á móti Íslendingasögunum. En jeg get skilið, að þar sem hans störf hafa legið svo langt frá því að fást við börn á þessum aldri, þá geti hann komist að þeirri niðurstöðu, sem hann komst. En hún er áreiðanlega röng. Hann sagði, að ekki væri heppilegt að láta börn lesa mikið utan skóla. Í þessu einmitt liggur munurinn oft og tíðum á börnum, að sum eru þvinguð til að lesa í skólanum, en önnur lesa líka utan skóla ýmsar bækur. Gamla uppeldið hafði þetta til síns ágætis, en nýja uppeldið býður bíó og þröngar lexíur. Börnin þurfa að læra að nota bækur sjálfstætt. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að 12 ára gamalt barn lesi Laxdælu og Egilssögu. Þetta er ljett krafa til barna, sem hafa sæmilega greind, að komast yfir að þekkja helstu söguleg atriði þeirra. Náttúrlega ef ætti að krefjast til prófs að vita allar ættartölurnar, væri þetta alveg óhæft. En þessi tillaga, þótt hún verði feld, er áreiðanlega byrjun á mótspyrnu gegn þessari skoðun, að börn eigi ekkert að vita nema um kenslubækurnar.

Jeg held það sje ekki rjett hjá hæstv. ráðherra, að hægt væri að ákveða með úrskurði fræðslumálastjórnarinnar samkv. gildandi lögum um að bæta Íslendingasögum við. Fræðslumálastjórnin hefir heldur aldrei stigið nokkurt spor í þá átt, svo að mjer sje kunnugt um. Get jeg því ekki búist við, að hún fari til þess nú. Þar að auki væri það ekkert betra fyrir börnin, þótt það væri valdboð fræðslumálastjórnarinnar en þótt tiltekið sje í lögunum.

Um vangefnu börnin er það náttúrlega rjett hjá hæstv. ráðh., að mörg af þessum börnum geta hvorki lært að lesa eða skrifa. Einmitt af því orðum við þetta eins og við gerum. Þarna er kennurum gefið undir fótinn. Minna getur það ekki verið en nokkur þekking, ef einhver er. Blærinn á þessari grein er þannig, að kennarar og prófdómarar sjá, að ekki er ætlast til að ofbjóða börnunum; og ef þau eru hreint og beint fábjánar, þá fer enginn kennari að þreyta sig á að kenna þeim.

En það, sem jeg held, að hæstv. ráðh. hafi ekki athugað, er það, að mörg börn eru, sem geta orðið læs og skrifandi, en ekki væri neitt vit í að kenna brot t. d., eins og hv. Nd. vill heimta. Að því leyti er áreiðanlega bót að þessari viðbót við 20. gr.

Við í nefndinni höfum gert okkar skyldu í því að taka þetta mál alvarlega til íhugunar. Við höfum einnig gert ráðstafanir til þess, að þetta mál yrði tekið sem fyrst á dagskrá. Þannig er það ekki okkar sök, þótt málið nái ekki fram að ganga, þar sem þó eru eftir 9–10 dagar af þinginu.