04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

7. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (JM):

Jeg held, að háttv. frsm. (JJ) hafi misskilið mig. Jeg hefi síður en svo á móti því, að reynt sje í skólunum að fræða börn um Íslendingasögur. En jeg er ekki viss um, hve heppilegt mundi reynast að heimta til prófs. þekkingu í því, sem ekki er kent í skólunum, sjerstaklega í kaupstöðum. Unglingar á lægsta fræðslustigi eiga ekki að skila öðru til prófs en því, sem kennararnir hafa kent þeim, eða sjeð um að þeir hafi lært.

Þeir kennarar, sem jeg hefi talað við, álíta, að það sje til býsna mikils ætlast með 1. till. mentamálanefndar. Jeg veit nú ekki fyrir víst, hve lengi háttv. frsm. hefir kent börnum. (JJ: Mörg ár). Það geta ekki verið mjög mörg ár. Hann hefir kent eitthvað í kennaraskólanum, en þar eru alt valin börn, og verð jeg því að efast um, að hann beri betra skynbragð á þetta atriði heldur en þeir kennarar, sem jeg hefi átt tal við um þetta.

Þá er brtt. um það, að ekki skuli kenna börnum almenn brot. Ja, jeg held nú, að börnum sje ekki neitt misboðið með því, þótt þau lærðu eitthvað í brotum, t. d. þau börn, sem eiga að kunna Laxdælu, Grettissögu og Njálssögu og geta sagt frá aðalefni þeirra. (JJ: Aðalatburðum). Jæja, það er nú nokkuð hið sama. Jeg ímynda mjer og að af góðri Íslandssögu fái börn að vita um þessa atburði, og þess vegna sje ekki svo miklu slept, þótt brtt. nái ekki fram að ganga.

Þá held jeg og að háttv. frsm. hafi misskilið það, sem jeg sagði um seinustu brtt. Jeg hafði aðeins á móti orðalagi hennar. vegna þess að það er ekki hægt að fyrirskipa, að öll börn læri að lesa og skrifa. En það gerir lítið til, þótt ekkert sje fram ekið um þetta í lögum, því að hver góður kennari mun telja það skyldu sína að kenna börnum bæði lestur og skrift, ef þau geta lært það. Jeg hygg því, að þessi brtt. sje óþörf.