06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

7. mál, fræðsla barna

Forsætisráðherra (JM):

Það er rjett, að það finst engin undanþáguheimild í þessu frv. að þessu leyti, svo það mætti vel segja, að till. væri óþörf. En þar sem tilraun hefir verið gerð til þess að koma þessari undanþáguheimild að í öðrum lögum, þá er ekki óeðlilegt, þó þessi till. komi fram hjer, því hugsast gæti, að komið yrði síðar fram með þá lögskýring, að þar sem konum væri svo víða heimilað að skorast undan kosningu í svipuðum tilfellum, þá mætti skoða svo, að það gilti einnig hjer. En eins og frv. nú liggur fyrir, þá mun varla hætt við slíku.