25.03.1926
Neðri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg bjóst satt að segja við því, að eitthvað mundi verða meira að segja á eldhúsdegi en þetta, enda þótt jeg viti, að núverandi stjórn hefir verið svo heppin í stjórnarstörfum milli þinga, að ekki muni margt við það að athuga.

Hitt er auðvitað, að hægt er að draga ýmisleg mál inn í þessar umræður, t. d. gengismálið. Og úr því háttv. þm. Str. (TrÞ) hefir óskað þess, að það mál yrði tekið hjer sjerstaklega út úr, og líkt hækkun ísl. kr. á síðastliðnu ári við ódæði á borð við víg Snorra Sturlusonar, þá vil jeg segja honum það, að skoðun manna, sem vit hafa á, bæði utan lands og innan, um hækkun krónunnar, er mjög á annan hátt en skoðun háttv. þm. Str. Þessi hv. þm. er mjög gefinn fyrir það að vitna í sögu, og vitnar þá jafnan í eina sögubók, sem sje Sturlungasögu. Jeg geri þó ráð fyrir, að það sje ekki af því, að hann hafi enga aðra sögu lesið, en vil samt ráða honum til þess að rifja upp fyrir sjer fleiri sögur og kynna sjer nýjar, og væri mjer ljúft að lána honum einhverja, ef á lægi. Hann þyrfti þá ekki að ganga þess lengur dulinn, að það hefir komið æðioft fyrir í veraldarsögunni, að peningar fjellu í verði, og það áður en farið var að nota pappírspeninga. Þá tóku menn upp á því stundum að láta slá ljelegri mynt en vera átti. Það var þeirra tíma háttur að fella gildi peninga. Háttv. þm. Str. getur lesið alla veraldarsöguna, og hann mun sjá, að það var aldrei gert nema sem mesta örþrifaráð að slá ljelega mynt. Þegar í öngþveiti var komið með hag einhvers ríkis, var stundum til þess ráðs gripið að slá enn ljelegri mynt, til þess að bæta úr þeim vandræðum, sem þessi ljelaga mynt hafði fyrst og fremst orsakað. Það er álit hinna merkustu sagnfræðinga, að ýmsar hinar mestu byggingar á ríkisfjelagasviðinu hafi hrunið af því, að þeir, sem þeim áttu að sjá borgið, hafi ekki gætt þess að halda peningum þeirra í því gildi, sem vera átti að rjettu lagi. Og eins hitt, að það hafi komið fyrir, að tekist hafi að sporna við hruni, sem yfir vofði, þegar góð og röggsöm stjórn kom eftir vonda stjórn og ljelega. Þá ljet hin nýja stjórn einatt slá betri peninga, og þegar sagnaritarar geta um slíkt, þá gera þeir það ætíð henni til lofs. Ætti nú þetta land að vera einhver sjerstök undantekning frá þessari algildu reglu? Ætti það hjer að verða gæfan og farsældin, sem gerðist hjer áður, meðan peningar landsins voru stöðugt að falla í gildi? Og ætti það að vera hermdarverk og óstjórn, þegar það hefir nú tekist á tiltölulega skömmum tíma að þoka peningum landsins æðistóran spöl í áttina að sínu fyrra gildi? Jeg veit ekki, hvort háttv. þm. Str. getur fengið samlíkingu við þetta úr griðrofa- og vígaferlasögu Sturlungaaldarinnar, en það veit jeg, að hann fær það hvergi í veraldarsögunni, er hann leitar þar hliðstæðra atburða, sem gerst hafa í öðrum löndum.

Það væri ástæða til þess að tala hjer nokkru nánar um þá skyldu, sem á okkur hvílir að koma íslenskri kr. upp í gullverð, en jeg mun samt ekki fara langt út í það af ýmsum ástæðum. En þó vil jeg leyfa mjer — sökum þess að jeg af tilviljun er hjer með brjef í vasanum — að vísa til ummæla þess manns, sem lengstan tíma hefir átt þátt í stjórn okkar málefna. en stendur sjálfur utan við deilumál dagsins, og ber sjálfur gott skyn á málið og er því kunnugur, hvernig heimurinn lítur á það. Hann segir í brjefi til mín sem mjer barst fyrir rúmri viku, þar sem hann minnist á þýðingu þess, ef vjer stýfðum gengi krónunnar:

„Það er enn ekki hægt að fullyrða um það, hvaða stefnu Norðmenn taka í þessu máli. En ef Íslendingar verða eina hlutlausa þjóðin, sem stýfir gjaldeyri sinn, þá er víst, að af því mun stafa mikið og langvarandi tjón fyrir lánstraust landsins.“

Svona líta þeir menn á þetta, sem eru vel kunnugir okkar högum og þessu máli öllu, en standa hinsvegar svo langt álengdar, að þeir láta ekki glepjast af þeim lúðurhljóm uppgjafar og ómensku, sem sífelt kveður við í blaði því, sem háttv. þm. Str. stýrir.

Það mætti mjög mikið segja um þær ríku skyldur, sem á okkur hvíla um að rjetta aftur við gengi okkar gjaldeyris, sem fallið hefir í verði af litlu öðru en okkar eigin handvömm. Og jeg er satt að segja upp með mjer af því, þegar forustumaður andstæðingaflokksins getur ekki fundið stjórninni annað eða verra til foráttu en það, að hún hafi leyft sjer að horfa upp á það, að góðærið þokaði gjaldeyri vorum allverulega í áttina til hækkunar í gullverð, sem er skylda okkar að ná, ef fjárhagslegur máttur þjóðarinnar leyfir það.

Þá skal jeg minnast nokkuð á þau einstöku atriði, sem háttv. þm. Str. tíndi fram í sambandi við þetta mál, og mun jeg þá eins og hann minna ofurlítið á það, sem gerst hefir í þinginu um þau mál. Fyrst taldi háttv. þm. Str., að stjórnin hefði hundsað bændastjett landsins, er hún skipaði stjórn ræktunarsjóðsins. Jeg hefi nú ekki úr neinni átt heyrt að því fundið, hver skipaður var forstjóri ræktunarsjóðs, svo jeg geri ekki ráð fyrir því, að þessi ummæli eigi við skipun hans. En í lögunum um ræktunarsjóð var svo ákveðið, að stjórn hans skyldu skipa tveir menn, auk forstjórans, sem gæslustjórar, og tekið fram um annan þeirra, að hann skyldi hafa sjerþekking á landbúnaði. En um hinn virtist liggja í augum uppi, að ef sjálfur forstjórinn hefði ekki sjerþekking á bankamálum, þá ætti að velja hann með það fyrir augum. Og jeg fæ ekki sjeð, hvaða hundsun það er fyrir bændastjett landsins, þó settur væri við hlið þessa manns annar maður með sjerþekking á landbúnaði, úr því það var ákveðið í lögunum, að annar gæslustjóranna, en ekki báðir, skyldi hafa sjerþekking á landbúnaði. Mjer virðist þá ekki annað eftir en efniságreiningur um það, hvað sje sjerþekking á landbúnaði. Þegar það er athugað, hverra manna var völ í þetta starf og jeg hafði talað um málið við hæstv. atvrh. (MG), þá kom okkur saman um, að það bæri að gera þá kröfu til mannsins, sem skipaður yrði, að hann væri starfandi maður á sviði landbúnaðarins, ræki búskap annaðhvort fyrir eiginn reikning eða sem ráðsmaður annara. Jeg vildi ekki láta það nægja, þó maðurinn hefði eitthvert búfræðispróf, ef hann annars fengist ekki við búskap sjálfur. Þetta er nú mín skoðun á því, hvað sje sjerþekking á landbúnaði. Það má vera, að háttv. þm. (TrÞ) álíti, að sjerþekking á búnaði sje eitthvað annað. En nú eru það ekki ákaflega margir menn, sem sjálfir reka búskap hjer í bænum eða svo nálægt honum, að til greina gætu komið, þar sem gera verður ráð fyrir því, að þessir menn verði að vera þarna viðlátnir daglega, eða að minsta kosti tímum saman, en þó voru þeir nokkrir. Þá sneri stjórnin sjer til Búnaðarfjelags Íslands og bað um tillögur þaðan, en þar er háttv. þm. (TrÞ) formaður í fjelagsstjórninni. Og meðal þeirra manna, sem Búnaðarfjelagsstjórnin mælti með, var sá maður með sjerþekkingu á landbúnaði, Þórður læknir Sveinsson, sem allir vita, að hefir um langa hríð veitt forstöðu stórbúi, og það einmitt búi, sem rekið hefir verið að nýtískuhætti. Þar við bætist, að hann var sá eini af umsækjendum, sem stjórn Búnaðarfjelagsins öll var sammála um. (TrÞ:

Jeg veit heldur ekki til þess, að nokkur hafi gert athugasemdir við skipun þessa manns). Nú, jeg veit þá sannarlega ekki, að hverju hjer er verið að finna — jeg segi það satt. En jeg vona, að háttv. þingdeild skilji, að hjer var ekki verið að sýna bændastjett landsins neina móðgun. Hjer var um þá einu kröfu að ræða, að sá, sem teldist hafa sjerþekking á búskap, ræki búskap sjálfur. Að það varð maður með embættisprófi var a. m. k. meðfram vegna till. frá Búnaðarfjelagi Íslands.

Þá sagði hv. þm. (TrÞ), að stjórnin hefði gefið hjer ranga skýrslu um mikilsvarðandi mál. Jeg játa það, að jeg veit ekki, við hvað hann á, enda ljet hann ekki fylgja þessu neina skýringu. Og jeg verð að telja það fullkomlega óviðeigandi að hreyta slíku fram án þess að gera minstu tilraun til þess að rökstyðja það.

Hv. þm. (TrÞ) mintist einnig á skattastefnur, en bað um leið eins og afsökunar á því, að hann skyldi minnast á slíkt hjer. Jeg hjelt, að það mál hefði verið útrætt á síðasta þingi og ekkert hefði gerst í því efni síðan, sem hægt væri að gera að umtalsefni hjer. Nei, gengismálið var alt, sem hv. þm. gat fundið sjer til; en vol hans og víl um það, að búið væri að ganga af atvinnuvegum landsins dauðum vegna gengishækkunar, var ekki annað en hugarórar, sem jeg gæti skilið hjá sjúklingi, en eru hinsvegar svo fjarri rjettu lagi, að jeg get ekki látið vera að undrast það, að heilbrigður maður skuli láta sjer slíkt um munn fara. Það er nú svo fyrir að þakka um landbúnaðinn, að hann ber nú hærra höfuðið, sem betur fer, en, hann hefir gert um langt undanfarið skeið. En það er með þennan atvinnuveg eins og aðra atvinnuvegi þessa lands og alla atvinnuvegi yfirleitt, að honum vegnar stundum betur og stundum miður. Það hefir verið sagt, að bændur hafi safnað skuldum á síðasta ári. En slíkt er ekki annað en staðfesting á því lögmáli, að í góðu árunum safna menn skuldum. Af hverju? Af því, að þá ráðast menn í framkvæmdir. Jeg verð því að segja það, að þó kunnugleiki minn um sveitir landsins sje ekki eins mikill nú eins og hann var áður, þá þori jeg þó að segja það, að framkvæmdir bænda á síðasta ári voru meiri en nokkru sinni á síðustu 10 árum. Það er því von, að skuldirnar hafi aukist. Menn hafa líka notað sjer góðærið, einkum norðanlands, þar sem heyfengur var afburðagóður, til þess að auka bústofn sinn. Svo þó skuldir manna hafi vaxið, þá sannar það ekki, að gengishækknnin hafi bakað þessum atvinnuvegi verulegt tjón, og það því síður, sem verslun með landbúnaðarafurðir gekk dável.

Skraf hv. þm. (TrÞ) um unga menn, sem gengishækkunin hefði brotið á bak aftur, hefir heyrst hjer áður, og eina viðeigandi svar við því var þingvísa, sem þá kom og dró fullkomið dár að þessum orðum. Og þó það kynni að vera einstöku maður í þessu landi, sem festi trúnað á skrafi hv. þm. (TrÞ) og misti kjarkinn, þá er slíkt ekkert undarlegt. Svo mikið talar hann um þar ógnir og erfiðleika, sem framundan sjeu af völdum gengishækkunarinnar. Jeg held nú, að ef einhver ungur maður af góðum ættum í sveit hefir mist kjarkinn og ætlað að bresta eða bogna, þá eigi hv. þm. Str. sjerstaklega sök á því.

Þá talaði hv. þm. (TrÞ) um það, að sjávarútveginum hefði verið íþyngt, svo nú væri þar fyrir dyrum alvarleg kreppa. Jeg skal viðurkenna, að það sje ögn meira sannleikskorn í því, að gengishækkunin hafi þrýst að sjávarútveginum. En því má ekki gleyma, að breytingin hjer stafar af fleiru en gengishækkuninni. Hún stafar fyrst og fremst af verðfalli á fiski — ekki því, að verðið hafi lækkað að krónutali vegna gengishækkunar, heldur af verðfalli, í gulli reiknað. Og þó verðfall hafi stundum orðið meira og verra en nú, þá var það þó óvenjumikið og hastarlegt. Jeg hefi gert grein fyrir því áður, hve miklu það hafi numið, og að það byrjaði ekki fyr en nokkru eftir það, að gengishækkunin á síðasta hausti var um garð gengin. Það var sem sje afarmikil framleiðsla á fiski 1925, og enn bættist hjer fleira við, sem oft vill verða, þar á meðal það, að eitt stærsta fiskframleiðslulandið, Frakkland, hefir átt við gengislækkun að búa. Og eins og jafnan verður, þá undirseldi þetta land, Frakkland, sína framleiðslu, með þeim venjulegu afleiðingum, að vara þessi, fiskurinn, fjell. Eins fór á Ítalíu. Það er þessi undirsala Frakka, sem gert hefir markaðinn þar svo erfiðan síðustu mánuðina. Það þýðir ekki að kenna hækkun krónunnar um það, sem runnið er af alt öðrum rótum. En hinu skal jeg ekki neita, að hækkun krónunnar hafi valdið nokkrum erfiðleikum. Enda er ekki hægt við því að búast, að hægt verði að hækka krónuna án þess. Það má kalla sjerstakt lán, að það gat orðið eins mikil gengishækkun og varð á síðasta ári, án þess að landbúnaðurinn yrði þess var svo teljandi væri. Þegar hann svo segir út af þessu, „að framsóknarhugur bændanna sje drepinn,“ þá segir hann það af því, að hann hefir svo áþreifanlega rekið sig á það í hinum pólitíska skilningi, því að honum mun fullkunnugt um, að síðastliðið ár hefir dregið mjög úr hug bænda til þess að fylgja flokki þeim, sem kallar sig Framsóknarflokk. En að dregið hafi úr framsóknarhug bænda til þess að efla og bæta hag sinn og sinna, þarf hann ekki að segja mjer neitt um. Annars get jeg vel trúað, að honum þyki ekki glæsilegur árangurinn af starfi sínu, þegar svona hefir farið um framsóknarhug bændastjettarinnar til fylgis við Framsóknarflokkinn. En þar má hann sjer sjálfum um kenna.

Þá endurtók þessi háttv. þm. þau ummæli sín, að hækkun gjaldeyrisins síðastliðið haust hefði verið gerð á móti vilja þingsins. En þetta er ekki rjett, og hefi jeg gert fulla grein fyrir því áður, að það lá fyrir ákveðinn þingvilji um að hækka krónuna, svo framarlega sem kringumstæður leyfðu.

Um það, hverjum hin öra hækkun krónunnar sje að kenna eða þakka, er það að segja, að þessi háttv. þm. og hver annar, sem vill kenna eða þakka stjórninni hana, fer villur vegar, og eins þó að þeir vilji eigna Landsbankanum hana. Því að það er nú svo, að gengi íslenskrar krónu er ekki hlutur, sem hægt er að ákveða með auglýsingu eða tilkynningu, heldur miðast það við framboð og kaup á erlendum gjaldeyri. Nú stóð svo á hjer, að krónan hafði staðið föst frá því í maí og til ágústmánaðarloka. En þá kom það, að Landsbankinn vildi ekki kaupa sterlingspundið lengur óbreyttu verði. Hinn bankinn vildi aftur á móti halda áfram að kaupa það með sama verði fram í miðjan september. Að hann hafi þá snúið sjer til landsstjórnarinnar um stuðning til að halda genginu óbreyttu, er ekki rjett. Hið sanna er, að stjórn Landsbankans skrifaði landsstjórninni brjef um málið, og skyldi jeg sannarlega hafa tekið það með mjer, ef mjer hefði dottið í hug, að háttv. þm. Str. hefði ekkert annað fram að bera við þetta tækifæri en gengismálið.

Í brjefi þessu leiðir bankastjórnin athygli að því, að fara þurfi gætilega með seðlaútgáfuna að haustinu. Eftir að hafa yfirvegað þetta, svaraði landsstjórnin brjefinu og tjáði sig samþykka þessu. Afrit af brjefi þessu sendi stjórnin svo Íslandsbanka. Er því hjer um alt annað að ræða en að bankinn hafi snúið sjer til stjórnarinnar um stuðning, eins og háttv. þm. Str. hefir haldið fram. Skal jeg svo ekki fara lengra út í þetta mál nú, af því að hann gaf ekki tilefni til þess, en jeg er reiðubúinn að ræða það áfram, ef þess er óskað.

Þá mintist þessi háttv. þm. á kröfurnar um aukaþingið. En eins og jeg hefi tekið fram áður, get jeg ekki rætt þær í sambandi við gengismálið, því jeg tel, að aukaþing, sem kallað hefði verið saman í október, myndi engin áhrif hafa haft á verð sterlingspunda, sem streymdu hingað í september. Annars heyrir það ekki undir mig sjerstaklega að taka til yfirvegunar, hvort rjett hefði verið eftir tillögum frá einum þingmanni og einum utanþingsmanni að hlaupa upp og kalla saman aukaþing.

Þá gat hann þess, að hann hefði borið fram tillögu um að stöðva gengi sterlingspundsins í 24 kr. Jeg skal strax taka það fram, að tillaga þessi var borin fram af honum sem gengisnefndarmanni. En sá ljóður var á því ráði, að hún var borin fram af honum sem minni hluta í nefndinni, og frá sjónarmiði mínu og annara, sem telja það skyldu að hækka krónuna upp í gullverð, hafði tillaga þessi þann ókost, að gera mátti ráð fyrir, að ekki yrði hægt að hækka krónuna síðarmeir upp úr þessu gildi, ef tillögunni hefði verið fylgt. Vitanlega var þetta ekki ókostur í augum stýfingarmanna. En það var nóg til þess, að við hækkunarmenn gátum ekki gengið inn á hana, þar sem búast mátti við, ef það yrði gert, þá yrði ekki hægt að framkvæma frekari lækkun gjaldeyrisins.

Fyrir þetta tjáir háttv. þm. (TrÞ) ekki að deila á okkur. Hann verður að gera það á rýmri grundvelli, sem sje þeim, að við viljum ekki aðhyllast stýfingu, heldur erum hækkunarmenn.

Meðal annars endaði hann ræðu sína með ummælum um fulltrúa stjórnarinnar í gengisnefndinni. Inn á það ætla jeg ekki að fara nú. Jeg hefi áður getið þess, að stjórnin hafi skipað formann gengisnefndarinnar, og að hún hafi verið svo heppin í vali sínu, að hafa skipað þann mann, sem gæddur er miklum vitsmunum og nýtur trausts alþjóðar. Getur hann því sjálfur komið fram sem forsvarsmaður sinna eigin skoðana. Gerist því engin þörf að draga skoðanir hans inn í umr. nú.

Þá klingdi hann ræðu sína út með því að segja, að seðlabankinn vari fjármálaráðherra sjálfur. En þetta er tæplega hálfur sannleikur, og þarf jeg ekki að skýra það fyrir þeim, sem kynt hafa sjer bankamál, að það er ekki nema örlítið brot af þeirri starfsemi, sem seðlabanki annars hefir, sem nú er í höndum fjármálaráðherra.

Hitt skal jeg viðurkenna, og það tók jeg fram í fyrra, að brýn þörf væri á, að þingið reyndi sem fyrst að ráða fram úr seðlabankamálinu þannig, að hjer kæmi upp seðlabanki, sem ráðið gæti bót á því ástandi, sem nú er, því að það ástand er hvorki fugl nje fiskur.