06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

7. mál, fræðsla barna

Einar Árnason:

Jeg held, að ef ganga á svo frá þeim lögum, sem þessi atriði snerta, að það verði tekið sjerstaklega fram, hvenær konur megi skorast undan kosningu til opinberra starfa, svo sem gert var í lögum um kynbætur hrossa og í lögum um kosningar í sveitar- og bæjarmálum, þá hlýtur svo að vera, að þegar ekkert er tekið fram um þetta beinlínis, þá sje það óheimilt. Það er ekki þannig að skilja, að jeg sje á móti því, að konur noti sinn kjörgengisrjett. Það er langt frá því, að jeg hafi á móti því, að þær sitji t. d. í fræðslunefnd. En mjer virðist till. algerlega óþörf, sökum þess að í frv. stendur ekkert um það, að konur geti skorast undan kosningu. Það er því engin ástæða til að samþykkja þessa tillögu.