29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg efa ekki, að það sje rjett hjá hv. þm. Borgf. (PO), að ekki sjeu nema 3 lán önnur, sem eru eins og þetta að forminu til. En það eru fleiri lán til fátækra hreppa, sem eins stendur á með í alla staði, þótt þau sjeu úr viðlagasjóði. Annars hefi jeg enga löngun til að standa á móti þessu; mig langar ekkert til að spilla fyrir því, að fátækir hreppar fái hjálp út úr fjárhagslegum ógöngum. En það er aðeins það, sem jeg hefi viljað benda á, og álít mjer skylt að segja, að verði þessi till. samþykt, koma fleiri á eftir.

Jeg vil ekki fara að deila við hæstv. fjrh. um það, hvort fordæmi sje fyrir því að kaupa skógarblett úr landareign, eins og Sigríðarstaðaskóg. Jeg skal ekki segja, að fordæmi sje fyrir því, en það er þó ákaflega nærri, þegar presturinn á Hálsi fær 200 kr. linun á afgjaldi, gegn því að taka undan ábúð nokkra skógarspildu, sem er á jörðinni. — Út af ummælum hæstv. fjrh. um fordæmið, vil jeg taka það fram, að jeg geri ráð fyrir, að þingið sjái fótum sínum forráð og fari ekki út á neina glapstigu um kaup á skógarblettum. — Jeg veit ekki, við hvað hæstv. ráðh. á, þegar hann segir, að þetta sje borið fram af ástæðum skógræktinni óviðkomandi.

Það er sjálfsagt rjett hjá hv. þm. V.-Sk. (JK), að erindi hafi legið fyrir fjvn. um lán til sjúkraskýlisins. En þegar menn vita, að 225 erindi lágu fyrir nefndinni. hygg jeg, að engan þurfi að furða, þótt jeg kunni þau ekki öll utan að.