10.02.1926
Efri deild: 3. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

8. mál, skipströnd og vogrek

Forsætisráðherra (JM):

Eins og tekið er fram í aths. við frv. þetta, samþykti Nd. í fyrra ályktun um að skora á ríkisstjórnina að endurskoða gildandi lagafyrirmæli um skipströnd og leggja fyrir Alþingi frv. um þetta efni, og er því þetta frv. fram komið. Frv. þetta felur í sjer gagngerða endurskoðun á þessum lögum, og um leið voru tekin upp ákvæði um vogrek, vegna þess að lög þau, sem hingað til hafa gilt um það efni, hafa verið óljós í ýmsum atriðum og óákveðin. Jeg vonast til að tekist hafi í þessu frv. að fá þau atriði skýrari en áður, og jeg vænti þess, að sú hv. nefnd, sem fær frv. þetta til athugunar, athugi það vel og gefi því góðan gaum. Öll lög um þessi efni, sem snúa að nokkru út á við, eru mjög athugunarverð, en sjerstaklega þó þau, er skipströnd varða, því þau hafa sjerstaka þýðingu út á við, gagnvart erlendum þjóðum. Það sjest á aths. við frv., hverjar þær breytingar eru, sem frv. gerir á núgildandi lögum, og býst jeg við, að væntanleg nefnd kynni sjer þær. Jeg vil geta þess, að upptökin til þessarar endurskoðunar á lögunum um skipströnd átti sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu, Gísli Sveinsson, enda er hann sá af lögreglustjórum landsins, sem mesta reynsluna hefir fengið í þessum málum. Er í frv. farið mjög mikið eftir tillögum hans, og verður hv. nefnd gefinn kostur á að athuga þær allar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta að þessu sinni, en vænti þess aðeins af væntanlegri nefnd, sem ætti að vera hv. allshn., að hún athugi þetta mál eins vel og vert er.