25.03.1926
Efri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

8. mál, skipströnd og vogrek

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vil tjá hv. allshn. þakkir mínar fyrir meðferð hennar á þessu máli, og vil bæta því við, að hún hefir afgreitt það mjög fljótt, þar sem málið er bæði vandasamt og umfangsmikið.

Brtt. hv. nefndar eru flestar smávægilegar, margar aðeins orðabreytingar og sumar lítið meira. Hefi jeg ekkert verulegt við þær að athuga.

Fyrstu 4. brtt. eru aðeins orðabreytingar, að þeirri fyrstu e. t. v. undantekinni. Jeg býst við, að þar hafi vakað fyrir þeim, sem samdi frv., það sem venjulegast er. En það spillir náttúrlega engu, þótt greininni sje breytt svo, sem hv. allshn. leggur til.

Jeg get ekki verið alveg sammála hv. allshn. um það að bæta inn í 21. gr. tilvitnun til 10. gr. Því að jeg er engan veginn viss um það, að ekki standi öðruvísi á um útlendinga en innlenda menn. Þessi skylda, sem ríkissjóði er lögð á herðar, ef till. hv. nefndar nær fram að ganga, getur haft í för með sjer þó nokkur fjárútlát, og er ekki víst, hvað af því verður endurgoldið, þegar um innlenda menn er að ræða. Annars hefir ríkissjóður erlend ríki að halda sjer að með greiðsluna. Vil jeg samt ekki beita mjer á móti till.

6. brtt. hv. allshn. er ekkert við að athuga, og er hún aðeins leiðrjetting.

Þá er næsta brtt., að í stað „neyslumaður“ komi „notandi“. Jeg er nú ekki viss um, að það sje neitt betra orð, þótt jeg vilji ekki gera það að kappsmáli.

Um brtt. við 24. gr. ætla jeg ekki að deila.

Brtt. hv. nefndar við 25. gr. álít jeg að sje til bóta.

Þá hefi jeg ekkert að athuga við brtt. við 28. gr., að stytta frestinn úr 4 í 2 ár. Þar á móti verð jeg að segja, að brtt. hv. nefndar við 33. gr. er síst til bóta. Sú grein er þvert á móti miklu betur orðuð í frv., þó að jeg verði að játa það, að orðalag hv. nefndar er betur í samræmi við venju í ýmsum lögum. Það er þetta „sem“ — „sem með almenn lögreglumál“ —, sem jeg kann svo illa við. Það er náttúrlega komið hingað úr latínu, og fer illa í íslensku.

Annars ber mjög lítið á milli mín og hv. allshn., og vil jeg enda mál mitt með því að þakka hv. nefnd að nýju fyrir meðferð sína á málinu.