04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

8. mál, skipströnd og vogrek

Jón Auðunn Jónsson:

Það er næsta auðsjeð, að þetta frv. er gert með hag sjerstakra landshluta fyrir brjósti. Einkum er það þægilegt fyrir suðausturströndina, og ef til vill Mýrarnar líka. Það var því sjer í lagi vel fallið, að það skyldi lenda hjá nefnd, þar sem sæti áttu hv. þm. V.-Sk. (JK) og hv. þm. Mýr. (PÞ). Verður víst ekki annað sagt en það hafi fallið í hinn besta jarðveg í hv. nefnd.

En þótt fyrirmæli frv. sjeu góð á þessum stöðum, þar sem skjótra ráðstafana þarf við, þá fer því fjarri, að þau sjeu nýtileg annarsstaðar. Enda hafa nefndinni borist mótmæli gegn frv. frá umboðsmönnum allra vátryggingarfjelaga hjer í bæ, erlendra og innlendra. Álitu þeir, að í frv. fælist slík takmörkun á rjétti þeim og venjum, sem gilt hafa um skipströnd, að ekki yrði við hlítt.

Jeg skal fúslega játa, að oft þarf skjótan úrskurð um, hvað gera á við strönduð skip; á það einkum við á söndunum austur með landi, og að nokkru leyti á Mýrum við Borgarfjörð. En því verður vart neitað, að hart sje að beita neyðarreglum alstaðar annarsstaðar, þar sem skip geta staðið á strandstað tímunum saman án þess að skemmast til muna.

Það er sýnilegt, að þetta frv. er fyrst og fremst miðað við hag þeirra, sem bjarga úr strandi. Fyrir því er sjeð, að þeir fái undir öllum kringumstæðum alt sitt. Það er t. d. sagt, að björgunarsamningar sjeu ekki gildir, nema lögreglustjóri samþykki þá. Segjum t. d., að jeg væri umboðsmaður fyrir erlent vátryggingarfjelag og gerði samning við „Geir“ um að bjarga skipi úr strandi. Hvaða vit er þá í því, að sá samningur væri ógildur, ef lögreglustjóri hefði ekki ritað samþykki sitt á hann? Auk þessa eru í frumvarpinu mjög eindregin ákvæði um það, að skip og góss sje að veði fyrir þá, sem vinna að björgun. Jafnvel er gengið svo langt að heimila veð í þessum hlutum fyrir kostnaði við heimsending strandmanna. Jeg veit ekki annað en að venja sje að gera það á kostnað viðkomandi ríkis. Setjum t. d. svo, að nokkuð bjargist af vörum úr skipi, en ekki skipið sjálft. Þá gætu allar vörurnar farið í björgunarkostnað, og vátryggingarfjelagið, sem trygði þær, mætti sitja uppi með allan skaðann. Ríkið verður að borga allan kostnað við heimsending strandmanna, svo sem verið hefir, ef ekki á að gera okkur að skrælingjum í augum allra siðaðra þjóða.

Eina ákvæðið, sem jeg hefi sjeð í frv., að miði til þess að tryggja rjett eiganda strandaðs skips eða góss úr því, er í 10. gr. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„— — Ef strandmunir hverfa eða fara forgörðum af mannavöldum, skal hreppstjóri eða sá annar, er með umboð lögreglustjóra fer, skýra honum tafarlaust frá því, enda skal lögreglustjóri rannsaka málið jafnskjótt sem unt er.“

Ef hlutum er beinlínis stolið af hinu strandaða góssi, þá á að rannsaka málið jafnskjótt sem unt er! Þetta held jeg, að sje eina ákvæðið, sem miðar til þess að tryggja rjett þeirra, sem verða fyrir því óláni, að eignir þeirra lendi í strandi.