11.02.1926
Efri deild: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Á þinginu í fyrra var vísað til stjórnarinnar till. til þál., sem fram kom, um að endurskoða sveitarstjórnarlögin og fátækralögin. Var fyrst í ráði að skipa milliþinganefnd í þessi mál, og væntanlegri nefnd var gert að skyldu að koma á þessu þingi fram með frv. um útsvör og kosningar í málefnum sveitar- og bæjarfjelaga. En hjer í hv. deild varð það ofan á að skipa ekki milliþinganefnd, heldur vísa málinu til stjórnarinnar.

Þetta er ástæðan til, að frv. þetta kemur hjer fram, en frv. til laga um útsvör hefir þegar verið lagt fyrir hv. Nd.

Jeg get ekki sagt, að mikið sje af nýjum ákvæðum í frv. þessu. Það, sem aðallega ávinst með frv. þessu, ef það verður að lögum, er það, að allra ákvæða um kosningar í málefnum sveitarfjelaga og bæjarfjelaga er þá að leita á einum stað. Það er þó alls ekki svo að skilja, að engin ný ákvæði sjeu í frv. þessu, því að vitaskuld varð að samræma hjer að lútandi ákvæði, sem voru dreifð í fjölda laga, 15 alls, og í ýmsum atriðum hefir verið breytt, t. d. lögunum frá 1915, um leynilegar kosningar í sveitum, og um borgarstjórakosningu í Reykjavík o. fl.

Jeg vona því, að þótt frv. sje talsvert umfangsmikið, þurfi það ekki að taka mjög langan tíma í háttv. deild og að það geti orðið afgreitt á þessu þingi.

Jeg legg til, að málinu verði vísað til allshn.