29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg stend upp til þess að undirstrika þau almennu ummæli, sem hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) hafði um þetta fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, og þær brtt., sem nú hafa dunið yfir þessa hv. deild. Það var að mínu áliti rjett, sem hann sagði, og eins það álit hv. fjvn., að nú sje teygjan úr tekjuhlið fjárlaganna, það sje búið að hækka svo tekjuliðina, að ekki komi til mála að hækka þá meira. Að vísu má segja um einstöku lið, að vera megi, að þeir fari eitthvað fram úr áætlun. En það þarf að vera, því mjög er úvíst um aðra, hvort þeir standist, eins og t. d. tekjur af vínversluninni. Það er mjög ólíklegt, að hann standist áætlun, eftir því útliti, sem nú er um árferði 1927.

Gjaldahlið fjárlagafrv. var hækkuð við 2. umr. um 430 þús. kr. eftir mínum reikningi. Frsm. nefndi eitthvað lægri upphæð. Útgjöldin samkvæmt frv. eins og það er nú eru rúmlega 10 miljónir og 800 þús. kr. Til samanburðar skal jeg geta þess, að fjárlögin 1925, sem voru fyrstu fjárlög, sem það þing, er nú situr, setti, voru afgreidd með 8 milj. 274 þús. kr. gjaldaáætlun, svo gjöldin eru nú meir en 2½ miljón kr. hærri en þá. Þar við bætist, að þær krónur, sem nú eru veittar, eru allmiklu stærri en þær, sem veittar hafa verið undanfarið. Meðalgildi okkar peninga 1921–'24 var ca. 60–65 aurar hver króna. En nú rúmlega 81–82 aurar pr. kr. Og það tjáir ekki annað en að líta á það, að sama krónutala er nú þyngri gjaldabyrði en áður var, svo að í stað þess að láta nú krónutöluna halda sjer, eða auk heldur hækka, þá ætti hún í raun og veru að fara lækkandi með hækkandi peningagildi. Jeg álít, eins og jeg hefi sagt hjer áður og nú er að nokkru leyti fram komið, að nauðsynlegt sje að lækka eitthvað og ljetta skattabyrði þá, sem hvílir á atvinnuvegunum. Nú hefir gengisviðauki á vörutolli verið numinn úr lögum, og jeg get sagt það, að fjhn. hefir á prjónunum enn frekari lækkun tolla á nauðsynjavörum, sem þyngst hvíla á framleiðslu landsmanna. Það frv. er aðeins ókomið, sem fer fram á það að lækka vörutoll á kolum og salti og steinolíu. Jeg hefi ekki sjeð þetta frv. og veit ekki, hve miklu hækkun þessi nemur fyrir ríkið. En jeg býst við því, að hún muni nema milli 200 og 400 þús. kr. á ári, líklega þó eitthvað nær hærri upphæðinni. Jeg verð nú að segja það, að jeg á mjög bágt með að vera á móti því að lögleiða linun á slíkum tolli á algerðum nauðsynjavörum, og er auk þess eins hár og kola- og salttollurinn, því jeg hygg, að slíkt sje algerlega einsdæmi meðal Norðurálfuþjóðanna, eftir því, sem jeg þekki til. Jeg hefi nú dregið þetta atriði hjer inn í umr. til þess að vekja athygli manna á því, að hv. deild mun gefast kostur á því að sýna það með atkvæðagr., hvort hún vilji fremur lækka tolla, sem hvíla þungt á höfuðatvinnu landsmanna, eða að öðrum kosti auka útgjöld ríkisins eða a. m. k. varna því, að þau lækki, svo sem till. þdm. nú bera helst með sjer.

Jeg skal viðurkenna það, að flestar brtt. v ið 2. umr., og eins megnið af till. nú, eru um fjárveitingar til verklegra framkvæmda Það er auðvitað æskilegt og gott að hraða slíkum framkvæmdum, eftir því sem geta ríkisins leyfir. En þess verður að gæta, að í frv. stjórnarinnar var ætlað miklu meira fje til verklegra framkvæmda en undanfarin ár. Jeg hygg miklu meira fje en jafnvel á nokkru öðru einu ári áður. Nú þegar þetta er aukið svo af stjórninni og síðan enn aukið með till. frá hv. þdm., þá vil jeg vekja athygli manna á því, að það hefir líka tvær hliðar að auka á einu ári úr hófi verklegar framkvæmdir ríkissjóðs. Bæði sökum þess, að það er örðugra í framkvæmd heldur en annars, ef hægt væri að komast hjá svo óvenjumiklum stigbreytingum í fjárveitingum þessum. En hin hliðin er sú, að þó það sje í sjálfu sjer æskilegt, að verklegar framkvæmdir aukist heldur á fjárkrepputímum, þegar atvinnuvegirnir sækja ekki mjög eftir vinnukrafti, þá verður að gæta hins, að það er óheppilegt, ef sú atvinna, sem þannig skapast, verður til þess að hindra þá kaupgjaldslækkun að krónutölu, sem nú stendur fyrir dyrum sökum hækkunar á verðgildi peninganna. Það verður því að fara hóflega í það að skapa í bili mjög mikla atvinnu við opinber störf, til þess að keppa um vinnukraftinn við atvinnuvegina á sama tíma sem kaupgjald er að komast í eðlilegt horf. Jeg vil biðja hv. þingdeildarmenn að líta einnig á þetta, þegar til atkvæðagreiðslunnar kemur. Og jeg skal enda þessi almennu ummæli mín með því að láta í ljós þá vissu von, að þetta þing, sem hefir getið sjer svo góðan orðstír fyrir þá stefnu, sem það tók þegar í upphafi 1924 til viðreisnar fjárhag landsins, kasti nú ekki frá sjer þessum góða orðstír með því að sýna ógætni um afgreiðslu fjárlaganna, hvorki nú eða á næsta þingi, sem er síðasta þingið á þessu kjörtímabili. Jeg vænti þess, að hv. þdm. sýni þá festu og samkvæmni við sjálfa sig, sem þarf til þess að halda í horfi um þá fjárhagslegu viðreisn, sem þeir hófu svo myndarlega 1924.

Jeg skal þá aðeins minna á eina brtt. hv. fjvn., um að fella niður aths. við 12. gr. 17.c, um að sjúklingar, sem kostaðir eru af opinberu fje, njóti sömu kjara í sjúkrahúsum og innanhjeraðsmenn. Jeg verð að segja það, að jeg er talsvert hissa á þessari till. fjvn. Jeg held, að hún hafi ekki aflað sjer nægilegra upplýsinga um málið áður en hún gerði þetta að till. Því það er sannarlega æðihart að horfa upp á það, að sjúkrahúsin skuli geta sett svo mikið sem þeim sýnist fyrir þá sjúklinga, sem hjer er um að ræða, vitandi það, að það eru yfirleitt engir aðrir utanhjeraðsmenn í sjúkrahúsunum en þeir, sem ríkið kostar — og standa algerlega varnarlaus gagnvart slíku.