11.02.1926
Efri deild: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi enga ástæðu til þess að vera óánægður með undirtektir hv. 2. þm. S.-M. (IP). Og þó hann gerði ofurlitlar athugasemdir við frv., þá þarf jeg ekki að svara því mörgum orðum. Jeg vil benda hv. þm. (IP) á það, að aldrei fyr, mjer vitanlega, hefir verið safnað í eitt öllum reglum um kosningar í málefnum sveitar- og bæjarfjelaga, því að í lögunum frá 1905 voru aðeins ákvæði um kosningar í sveitum, og þau giltu heldur ekki lengi, því 1909 voru sett ný lög um þetta efni.

Aths. hv. þm. (IP) um tölu hreppsnefndarmanna mun vera rjett, og vona jeg, að hv. allshn. athugi það.

En um leynilegar kosningar get jeg sagt það, að jeg veit líka til þess, að þær hafa verið viðhafðar og þótt rjettlátar, og tel jeg því varhugavert að nema þær burtu, ef hreppsnefndir vilja nota þær. En annars þykir mjer vænt um, að hv. þm. (IP) telur breytinguna á því atriði samkvæmt frv. til bóta, því jeg álít, að það sje óheppilegt, að menn geti látið jafnmörg atkvæði falla á einn mann við kosningu og mennirnir eru samtals, sem kjósa á. Gæti slíkt jafnvel orðið til þess, að aðeins einn maður yrði fyrir kjöri. (GuðmÓ: Gaman að láta ákvæðið standa þangað til slíkt kæmi fyrir). Það væri kannske gaman fyrir hv. þm. (GuðmÓ), en enga ánægju hefði jeg af því. — Þarf jeg svo ekki að segja fleira viðvíkjandi aths. hv. 2. þm. S.-M. (IP), annað en það, að þingið í fyrra óskaði eftir frv. um þetta efni, og því er órjettmætt að hafa á móti frv. nú af því að í því felist ekki öll löggjöf, er snertir sveitarstjórnir.