27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Í áliti nefndarinnar á þskj. 48 er flest tekið fram, sem segja þarf alment um þetta mál. Það er fremur auðvelt að samræma í einum lagabálki öll fyrirmæli um kosningar í bæjar- og sveitarmálum, því þar geta sömu ákvæði átt við, og að áliti nefndarinnar hefir þetta tekist hjer allvel í þessu fyrsta frv., er liggur fyrir hv. deild um endurskoðaða sveitarstjórnarlöggjöf. En vænta má, að erfiðlegar gangi að samræma ýms vandasöm ákvæði laganna, sem verða seinna tekin til meðferðar, enda þarf mikils við, eins og sjest á því, að núgildandi ákvæði um þau efni finnast nú í ekki færri en 16 lögum. — Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndin gert ýmsar till. til breytinga á frv., er hún leggur til, að verði samþ. Og þegar hún hafði rjett lokið við að gera þessar till. og undirskrifa nál., barst henni brjef frá bæjarstjórn Reykjavíkur með ýmsum till. viðvíkjandi þessu máli. Gat nefndin ekki sint þeim að sinni, af því þær komu svo seint til hennar. En að sjálfsögðu athugar hún brtt. þessar fyrir 3. umr. málsins.

1. brtt. nefndarinnar er við 3. gr. frv. Nefndin vill, að ógiftum konum a. m. k. sje jafnskylt og karlmönnum að taka við kosningu í sveitarstjórn og bæjarstjórn, og telur ástæðulaust, að þær geti skorast undan því. Hafa oft heyrst raddir um það frá konum, að þær þykjast nú afskiftar um völd og áhrif í opinberum málum. Og jeg er fyrir mitt leyti svo frjálslyndur, að jeg vil ekki, að þær hafi nokkra átyllu til slíkra kvartana. enda er það víst, að konur eiga oft eins hægt með að sinna, opinberum málum eins og karlmenn, og er því óþarft að gefa þeim með lögum rjett til þess að víkja sjer undan því.

2. brtt. er við 4. gr. Það liggur í augum uppi, að ef sýslunefnd á að úrskurða um kjörgengi manna til hreppsnefndar, þá getur slíkt dregist of lengi eða valdið óþarfa fyrirhöfn. Nefndin leggur því til, að í stað „sýslunefndar“ í niðurlagi 1. málsgr. komi :sýslunefndaroddvita.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að hver hreppsnefnd sje skipuð 3–5 mönnum. Nú er það kunnugt, að í ýmsum stórum hreppum eru 7 menn í hreppsnefnd, og munu menn ekki vilja breyta því. Leggur nefndin því til, að tala hreppsnefndarmanna sje 3–7, eins og verið hefir, og að leyft sje að hækka tölu hreppsnefndarmanna úr 3 í 5 og 5 upp í 7. Þá vill nefndin, að það, sem stendur milli sviga í 6. gr. frv., falli í burt, því að ætla má, að allir sjái sjálfir, hver er meiri hluti af 3, 5 eða 7.

Viðvíkjandi 7. gr. leggur nefndin til, að í stað „hreppskilaþingi á vori“ komi vorhreppaskilaþingi. Þykir henni hitt helst til fornt orðalag.

Brtt. nefndarinnar við 8. gr. frv. er gerð til þess að það sje ljóst, að ætlast sje til þess, að kjörskrár til sveitarstjórnarkosninga o. s. frv. sjeu gerðar á hverju ári. Ennfremur leggur hún til viðvíkjandi kærum út af misfellum á kjörskrá, að þær skuli sendast sveitar- eða bæjarstjórn, í stað kjörstjórnar, sem frv. gerir náð fyrir, því það er reynsla fengin fyrir því, að kjörstjórnir eru ekki kosnar nema þau ár, sem kosningar eiga að fara fram.

Við 11. gr. frv. leggur nefndin til. að orðin „nafns af“ á síðari staðnum í 3. málsgr. falli burt.

Þá þótti nefndinni 12. gr. frv. ekki nógu skýr, þar sem talað er um kjörmiða. Eftir frv. má gera ráð fyrir því, að menn með sama nafni standi á lista án þess að það sjáist, við hvern sje átt í hvert sinn. Úr þessu vill nefndin bæta með því að orða síðustu málsgrein þannig: Eigi má annað á seðil letra en nú var mælt, nema nauðsyn sje til aðgreiningar samnefndum mönnum.

Þá vill nefndin breyta þar, sem stendur „kosningargerðir“ í 14. og „kosningargerð“ í 16. gr. frv., og setja í þess stað: „kosningarathafnir“ og „kosningarathöfn“. Kann hún betur við það orðalag, enda virðist „kosningargerð“ eiga betur við það, sem bókað er um athöfnina, heldur en að það standi sem heiti á henni.

Þá þykir nefndinni ekki nógu skýr forsögn 15. gr. um það, hversu kosning skuli fara fram þegar kosið er eftir seðlum. Leggur hún því til, að bætt sje við á eftir 3. málsgrein: og gæti þess að láta engan sjá, hvað á seðlinum stendur, og að ekki megi láta seðilinn í kassann, ef þess er ekki gætt.

Ennfremur vill nefndin orða upp 19. gr. frv.

Í 20. gr. frv. er ekki gert ráð fyrir því, að kosning standi yfir nema eina klukkustund, sje kosningin munnleg. En nefndin vill leggja til, að hún skuli samt standa a. m. k. 2 stundir, í samræmi við skriflega eða leynilega kosningu.

Við 24. gr. gerir nefndin samskonar brtt. og í 15. gr., til að tryggja það, að kjósandi láti engan sjá, hvað á seðli stendur eftir það að hann hefir kosið.

Í upphafi 29. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að atvrh. skuli ákveða um, hvort fram megi fara hlutbundnar kosningar í hreppsnefnd. Það þótti nefndinni óþarft, að hver hreppsnefnd á landinu, sem vildi nota slíka kosningaraðferð, þyrfti að fara með slíkt í stjórnarráðið, svo hún leggur til, að í stað „atvinnumálaráðherra“ komi: sýslunefndaroddviti.

Í 30. gr. frv. er talað um, að semja skuli sjerstakar kjörskrár við kosningar borgarstjóra eða bæjarstjóra. En nefndin lítur svo á, að við slíkar kosningar beri að nota sömu kjörskrár og við bæjarstjórnarkosningar, og telur þetta því óþarft.

Við 31. gr. frv. vill nefndin, að í stað „sýslunefndar“ komi: oddvita sýslunefndar.

Lengsta brtt. nefndarinnar er við 32. gr. frv. Þar vill nefndin leggja það til, að seinni málsgreinin falli niður, en inn verði sett brtt. nefndarinnar, því hún telur ekki rjett í svona lögum að vísa í önnur lög, sem kunna að breytast er minst varir, heldur beri að taka slík ákvæði beint upp í lögin.

Í 34. gr. er gert ráð fyrir því, að minni hluti sýslunefndar gangi fyr úr, en meiri hluti síðar. En nefndin kann betur við, að þessu sje breytt þannig, að meiri hlutinn gangi fyr úr, svo sem gert er ráð fyrir í hreppsnefndum og bæjarstjórnum.

Jeg tel svo óþarft að hafa framsögu þessa lengri. Nefndin hefir átt tal við hæstv. atvrh. (MG), og býst jeg við því, að hann geti fallist á þær brtt., sem hún leggur hjer með fyrir hv. deild.