27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Ingvar Pálmason:

Jeg skal verða við tilmælum hæstv. atvrh. (MG). Jeg hjelt raunar, að hann skildi, að það hlýtur altaf að valda óþægindum, að hreppsnefndaskifti verði á miðju reikningsári, en svo myndi verða, ef ákvæði 7. gr. þessa frv. stendur óbreytt og frv. það um útsvarsskyldu, sem liggur fyrir þinginu, nær að ganga fram eins og það nú liggur fyrir, þ. e., að reikningsár hreppa verði almanaksárið.

Það getur verið, að það sje tilætlunin, að þó að hreppsnefndarkosning fari fram á vorhreppaskilum, taki hin nýkosna hreppsnefnd ekki sæti fyr en um næstu áramót. Þetta ber þó frv. alls ekki með sjer. (Atvrh. MG: Hreppsnefndaskifti verða strax og kosið er). Jeg hefi líka einmitt skilið frv. þannig. Jeg held að hreppsnefndir myndu yfirleitt una því illa, að hreppsnefndaskifti færu fram á miðju reikningsári og að fljótt kæmu fram óskir um breytingu á því. Hitt er annað mál, að ef engin breyting verður á um reikningsár hreppanna, á þetta ákvæði 7. gr. frv. vel við. En með það fyrir augum, að bæði þessi frv. gangi fram eins og þau komu frá hæstv. stjórn, finst mjer þau í þessu atriði ekki vera í samræmi hvort við annað.

Jeg sje því ekki annað en að athugasemd mín sje á fullum rökum bygð.