27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi ekki getað sannfærst af ræðu hv. 2. þm. S.-M. Jeg sje ekkert á móti því að skifta um hluta af nefndinni á miðju ári, og þó að oddvitinn fari frá, getur hann skilað af sjer eins fyrir því. Það er mjög algengt þar, sem um miklu stærri störf er að ræða en hjer á sjer stað, að reikningshaldari fari frá á miðju ári. Sýslumenn t. d. skila af sjer hvenær sem er. Sje jeg því enga ástæðu til að breyta þessu.