02.03.1926
Efri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg skal strax taka það fram, að mjer kom aldrei til hugar, að hæstv. forseti (HSteins) ætlaði að fara í kapphlaup við mig í þessu máli, enda þótt hann kæmi fram með till. svipaða að efni minni. Og jeg vona, að hann skoði það ekki sem kapphlaup af minni hálfu, þó að í brtt. okkar felist það sama. Annars er jeg þakklát fyrir að fá tækifæri til að gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, sem um leið er skoðun margra kvenna.

Jeg er ekki lögfróð og veit því ekki fyrir víst, hvort lög þau, sem hjer er verið að breyta, eru frá árinu 1909 eða eldri. En jeg býst við, að þegar þau gengu í gildi, þá hafi þetta þótt of stórt stökk frá fyrri lögum. Og má vel vera, að það hafi verið rjett að setja þessa undanþágu meðan lögin voru óreynd, en nú er fengin reynsla fyrir því, að þessi undanþáguheimild er með öllu óþörf. Og þó að engin hliðstæð undanþáguákvæði sjeu til um karlmenn, þá munu heldur fá dæmi þess, að þeim hafi verið þröngvað til að taka við kosningu. Það sýnir sig því, að engin ástæða er til að hafa þetta ákvæði að því er konur snertir, því að sjaldan mun hafa verið sóst mikið eftir þeim í bæjar- eða sveitarstjórnir.

Jeg vil því leyfa mjer að undirstrika það, að þó ákvæði þetta hafi verið sett í góðu skyni á sínum tíma, þá var það þó gert að konum fornspurðum, og margar þeirra líta svo á, að það sje gagnslaust, og jafnvel skaðlegt, og að í því felist frekar vantraust en vorkunnsemi.

Rýmkun á kosningarrjetti og kjörgengi kvenna í málefnum sveita og kaupstaða var mikil rjettarbót, og má segja, að hún hafi verið fyrirboði þess, sem varð 19. júní 1915, þegar konur fengu jafnrjetti við karlmenn. Við þeirri rjettarbót tókum vjer konur þakksamlega og töldumst í engu undan þeim skyldum, sem henni fylgdu. Þetta umrædda ákvæði hefir því engan stuðning í áliti kvenna, og þær hafa frá fyrstu talið það galla á lögunum og hafa vænst, að það yrði felt úr við endurskoðun þeirra.

Það gæti hugsast, að þetta ákvæði hefði haft þann aukatilgang að koma í veg fyrir, að konur yrðu of fjölmennar við þessi störf, en reynslan hefir nú sýnt hið gagnstæða. Er því sá varnagli með öllu óþarfur nú.

Að þessu athuguðu fáum við konur ekki sjeð, að þetta sje nein rjettarbót, heldur þvert á móti. Vil jeg því leyfa mjer að óska þess, að háttv. deild samþykki till. á þskj. 76, og virði þannig ummæli mín, sem jeg hygg, að borin sjeu fram með samþykki margra kvenna, giftra og ógiftra.