02.03.1926
Efri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að gera margar athugasemdir við ræðu háttv. 4. landsk. (IHB), því að við erum sammála um aðalatriðin. En það var ekki rjett hjá þessum hv. þm., að mönnum væri aldrei þröngvað í þennan starfa. Reynslan hefði sýnt það. Jeg hygg, að reynslan hafi sýnt hið gagnstæða. Það hefir vitanlega ekki komið til með konur, því að þær hafa ekki verið skyldar að taka við kosningu. En jeg veit nokkur dæmi þess, að karlmönnum hefir verið þröngvað í hreppsnefnd, sem ekkert er undarlegt, því að víða er svo háttað í sveitum, að tiltölulega fáir eru vel færir um þann starfa. Þetta á vitanlega síður að koma fyrir hjer eftir, þegar konurnar eru komnar í viðbót og þeim fjölgar þannig, sem um er að velja.