02.03.1926
Efri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg ætla fyrst að þakka háttv. frsm. fyrir, hve vel hann hefir skilið andmæli mín. Hvað það snertir, sem upplýst er, að körlum sje stundum þröngvað til þessara starfa, þá má vera, að til þess sjeu dæmi, en jeg hygg þó óhætt að ganga út frá því, að körlum sje vægt í þessu efni, ef lögleg forföll eru fyrir hendi. Út frá því sama má ganga um konur, og því fremur, sem vænta má, að riddaraskapur karlmannanna gagnvart konum skipi jafnan öndvegið og ekki verði gengið nær getu þeirra en þeim er ljúft og mögulegt.

Háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) sagði meðal annars, — jeg veit ekki hvort það hefir verið af því að jeg átti í hlut — að rökin hefðu verið tómar upphrópanir. Mjer þykir hart, þegar jeg tala um málefni, en ekki menn, að það sje kallaðar tómar upphrópanir. Þá sagði háttv. þm. (EÁ) í öðru lagi, að jeg vissi ekki, hve nærri væri gengið getu kvenna með þessu frv.

Jeg þykist með ummælum mínum áður hafa fært full rök fyrir mínu máli, og hvorki með fullyrðingum nje upphrópunum.

Í þriðja lagi sagði háttv. þm. (EÁ), að þeir, sem að þessum störfum ynnu, fengju vanþakklæti að launum. Jeg efa ekki, að slíkt geti komið fyrir, en ef meta ætti þörf störf eftir því, hvort þau eru þakklát eða vanþakklát, yrðu margir að draga sig í hlje. En því fer betur, að svona hugsa ekki allir. Hv. þm. sagði, að óhugsandi væri, að konur gætu tekið að sjer sum þessi störf. Jeg get kannast við, að sumum störfum af þessu tægi kunni að fylgja talsverðir örðugleikar. En jeg kem að því aftur, sem jeg sagði áðan, að jeg er viss um, að konum verður ekki þröngvað til slíkra starfa, ef lögmæt forföll eru fyrir hendi, þegar körlum er til dreifa, sem vilja og geta tekið störfin að sjer. (JóhJóh: Vart að treysta því). Jú, reynsla liðinna alda sannar það.

Þá talaði hv. þm. (EÁ) um skyldur, sem við værum að kalla yfir höfuð okkar. Honum hefir ef til vill þótt nokkuð digurt það, sem jeg sagði um daginn, að konur yrðu að gera sjer ljóst, að sömu rjettindum fylgdu sömu skyldur. Getur verið, að okkur skorti þrótt, en aflið vex, ef á er reynt. Jeg geri ráð fyrir, að það sje bæði af þekkingu talað og góðsemi í garð kvenna, að hv. þm. (EÁ) telur ófært, að konur geti ekki fengið undanþágu frá þessum störfum. Jeg skal fúslega játa, að þetta muni af góðum rótum runnið. En þótt tillögur mínar verði samþyktar, er ekki verra aðhafst en svo, að því má breyta aftur, ef þörf þykir á.

Að því er snertir ummæli hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að hann ljeti ekki hlífð við konurnar ráða atkvæði sínu, þá firtist jeg ekki við það. Það er auðvitað gott að láta hlífa sjer, en það er betra að láta treysta sjer.

Hv. þm. kvað umhyggjuna fyrir heimilunum ráða atkv. sínu. Það gæti auðvitað hugsast, ef lögunum væri framfylgt með óbilgirni, að kona, sem ekki ætti heimangengt, yrði að sinna ferðalögum. En jeg tel enga hættu á, að nokkurri konu yrði þröngvað til þeirra hluta. Slíkt væri ómannúðlegt, og varla mun til það hreppsfjelag, sem mundi beita sjer svo ómannúðlega. Það var þetta, sem jeg hafði að athuga við ræðu hv. þm. Seyðf. Jeg veit, að þetta er ekki vantraust frá hans hálfu til kvenna, heldur líklega hlífð. En umhyggjunni er ekki alstaðar hægt að koma að, og því verður að reikna með því, að konum verði sýnd sanngirni jafnt og körlum og lögleg forföll tekin til greina.