02.03.1926
Efri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að segja mörg orð, og jeg vona, að þau verði ekki í þeim tón, sem hneykslar hv. 1. þm. Eyf. (EÁ).

Hann vildi færa rök að því, að lítið mundi verða úr konum að sækja fund alt að 30 km. leið í stórhríð og ófærð. En jeg verð nú að segja það, að jeg þekki karlmenn, sem ekki mundu heldur sækja fund 30 km. leið í stórhríð og ófærð. En hvað segir hv. þm. um ljósmæðurnar. Jeg er hissa á, að þeir, sem eru svo riddaralegir í orðum um konur, skuli hafa þolað, að konur hafa gegnt þessari erfiðu stöðu í háa tíð. Jeg segi fyrir mig, að mjer mundi þykja miklu verra, ef kona í barnsnauð gæti ekki fengið hjálp heldur en þó að hreppsnefndarfundur færist fyrir. Jeg held, að rök þessa hv. þm. (EÁ) hafi ekki verið vitund betri en hjá mjer. Jeg er oft búinn að taka fram, að ef kona hefir lögmæt forföll, getur hún fengið undanþágu. Jeg treysti sýslunefndaroddvitum vel til þess að veita slíka undanþágu, ef um lögleg forföll er að ræða.

Jeg þekki ekki það dæmi, sem hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) mintist á. Þar sem jeg þekki til, er hlífst við að taka einyrkja, sem afskektir búa, til þess að gegna sveitarstörfum. (JóhJóh: Þeir gerast margir nú á dögum, einyrkjarnir). Þeim fjölgar að minsta kosti ekki við þessi lög. Jeg gæti líka hugsað mjer, að svo gæti staðið á, að kona einyrkjans hefði betri tíma til þess að fara að heiman að vetrarlagi en bóndi hennar. Yfirleitt finst mjer rök andmælenda ekki vera fullkomnari en hjá okkur.