02.03.1926
Efri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Einar Árnason:

Það var leiðinlegt, að hv. frsm. skyldi ekki taka til máls áður en jeg var „dauður“. En jeg skal verða stuttorður.

Hv. frsm. virðist ekki kannast við, að stórhríð geti brostið á meðan fundur stendur yfir, svo erfitt geti orðið að komast heim. En það þarf ekki stórhríð til. Ófærðin ein getur hamlað því, að konur komist á fund eða af fundi. — Hv. frsm. talaði um, að oddviti mundi geta losað konur við þessi störf, ef forföll væru fyrir hendi. Jeg veit ekki hvaða vald hann hefir til þess. — Hv. frsm. fanst víst, að hann ná sjer niðri, þegar hann mintist á ljósmæðurnar. Jeg veit ekki, hvort hv. frsm. veit, hvernig farið er að, þegar sótt er yfirsetukona í ófærð. Stundum fer það fram þannig, að 6 til 8 menn á skíðum aka yfirsetukonunni á sleða þangað, sem ferðinni er heitið. (Hlátur í salnum). Þetta er ekkert hlægilegt. Hver maður er fús á að leggja fram lið sitt, þegar svona stendur á. En hitt væri broslegt, að sjá 6 til 8 karlmenn aka konu á hreppsnefndarfund. Mjer þykir nú óvíst, að margir karlmenn vildu gefa sig í það starf. Það væri þá líklega vissara að taka það fram í lögunum, að menn væru skyldir til að aka konum á fundi, ef með þyrfti.