29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1927

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla að minnast örfáum orðum á brtt., sem jeg er flm. að á þskj. 297,VIII, um styrk til Evu Hjálmarsdóttur, til að leita sjer lækninga í Danmörku í heilsuhæli fyrir krampaveikt fólk. Erindi um þetta hefir legið frammi í lestrarsal og var sent til hv. fjvn., en hún mun ekki hafa getað orðið ásátt um að bera það fram, og því er okkur, mjer og samþm. mínum (ÁJ), skyldast að gera það.

Ástæður fyrir beiðninni eru í stuttu máli þessar: Þetta er stúlka á tvítugsaldri; þegar hún var 13 ára, veiktist hún af þessum sjúkdómi og hefir verið haldin af honum síðan. Áður var hún mjög bráðþroska og efnileg, og er þetta því tilfinnanlegra fyrir hana. Reynt hefir verið að leita henni lækninga, en það hefir reynst alveg árangurslaust, þótt hún hafi verið send til bestu lækna hjer á landi, því að hjer er ekkert hæli fyrir sjúkdóma af þessari tegund. Þess vegna er leitað fjárveitingar til að hjálpa henni utan, svo að hún komist í viðeigandi hæli. Alþingi hefir áður veitt slíka styrki sem þennan, þegar um þá sjúkdóma hefir verið að ræða, sem ekki var unt að leita lækninga á hjer á landi. Og í því fjárlagafrv., sem hjer liggur fyrir er einn styrkur, sem þessum er vel sambærilegur. Það er styrkur til Guðbjarnar Guðmundssonar prentsmiðjustjóra, til þess að kosta dvöl sonar síns í fábjánahæli erlendis. — Um beiðni þessa var leitað umsagnar landlæknis, og segir hann í áliti sínu, að sjúkdómurinn sje þeirrar tegundar, að hann geti læknast, en til þess þurfi stúlkan að fá vist í sjerstöku hæli fyrir krampaveikt fólk, og mælir hann með 1200 kr. styrk, svo að hún, með einhverjum viðbótarstyrk annarsstaðar frá, geti dvalið eitt ár á slíku hæli til reynslu. En sjáist engin batamerki að ári liðnu, telur landlæknir vonlítið að reyna frekar. — Þótt þetta fje sje nú mun minna en með þarf, þá er það þó hvöt til þess, að einhver hlaupi undir bagga með það, sem á vantar. Vona jeg, að hv. þm. sjái, hve sárt það er fyrir stúlkuna sjálfa, svo efnileg sem hún er, og aðstandendur hennar að horfa fram á það líf, sem bíður hennar, ef hún fær ekki bata, en geta gert sjer töluverða von um bata, ef þessi lítilfjörlegi fjárstyrkur fæst. Aðaltill. okkar er að hafa styrkinn 1500 kr., en þó höfum við borið fram varatill. um 1000 kr. Vænti jeg þó, að hv. þdm. líti ekki svo smátt á hlutina, að þeir geti ekki fallist á hærri till.