20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Magnús Torfason:

Jeg stend upp til að mótmæla 1. brtt. hv. meiri hl. nefndarinnar á þskj. 185, þar sem nefndin vill breyta ákvæðinu um rjett kvenna og skyldu til þess að taka við kosningu.

Eins og við vitum, hefir kvenfólkið og fulltrúi þess haldið því fram, að það ætti að hafa sömu rjettindi og skyldur í þessum efnum. Þær hafa ekki óskað að hafa nein sjerrjettindi í þessum efnum, eða rjettara sagt, þær hafa ekki óskað þess, að skyldur þeirra yrðu takmarkaðri en karlmanna. Það er með öðrum orðum kvenfólkið sem heild, sem óskar eftir því að verða ekki laust við þessar skyldur, og fyrst svo er, þá verð jeg að segja það, að mjer finst sjálfsagt að verða við þessum tilmælum, og ef við leyfum því ekki að ráða sínum tillögum í þessum efnum, þá virðist mjer, sem þar kenni nokkurrar harðstjórnar frá karlmannanna hálfu. Jeg get ekki betur sjeð en að karlmenn sjeu hjer að taka ráðin af kvenfólkinu, sjeu að gera sig nokkurskonar lögráðamenn fyrir það að þessu leyti, og að karlmenn þykist þarna þurfa að hafa vit fyrir kvenfólkinn. En jeg get ekki sjeð, að það sje nein ástæða til þess. Nú veit jeg vel, að þetta er fóðrað með því, að það eigi að fyrirbyggja það, að konur verði kúgaðar til þessara verka, og að það þurfi ákvæði í lögin til þess; en við því er ekkert að segja annað en það, að kvenfólkið vill það. Það er þá það, sem ræður því. Nú getur verið hjer um tvenskonar kúgun að ræða. Það gæti hugsast, að kvenmenn vildu kúga konur til þess að taka við kjöri, og þá er það nokkurskonar innanríkisdeila hjá þeim, sem þær verða að útkljá með sjálfum sjer og sem okkur karlmönnunum kemur ekki við. Við getum t. d. hugsað okkur, að til sjeu kvenfjelög, sem vilji koma einhverjum sjerstökum kvenmanni að, jafnvel þótt hún vilji kannske síður vera í kjöri, og verður þá kvenfjelagið að ráða því sjálft, hvort það vill kjósa hana samt.

Svo getur það líka hugsast, að karlmenn vilji kúga kvenfólk til þess að vera í einhverjum af þessum stöðum, en fyrst og fremst er nú það, að síðan kvenfólkið varð kjörgengt, mun ekki vera eitt einasta dæmi til þess, að karlmenn hafi reynt að kúga kvenfólk til þess að taka að sjer slíkar stöður. Það eru allmargir oddvitar hjer á þinginu, og veit jeg, að enginn þeirra getur komið með eitt einasta dæmi þess, að karlmenn hafi reynt að kúga kvenfólk til þess að taka sæti í hreppsnefnd eða öðrum slíkum nefndum. Slíkt undantekningarákvæði er því alveg óþarft. Og meira að segja, það liggja á bak við brtt. allshn. hreint og beint ósæmilegar getsakir og illkvitni í garð karlmanna. Jeg veit ekki betur en að það sje hreint og beint óskrifað lögmál, að karlmenn eigi aldrei að kúga konur, eins og það er líka óskrifað lögmál, að karlmenn megi aldrei blaka konur, og jeg er alveg viss um það, að það vill enginn sannur karlmaður vita slíkt á sig; þvert á móti er það óskrifað lögmál, að hlífa beri konum á allan hátt. Karlmenn skoða sig skylda til að verja konur, og þykir ódrengskapur að gera það ekki, og það gengur jafnvel svo langt, að þegar um lífið er að tefla, þykir sjálfsagt að láta konur ganga fyrir um björgun, og eru mörg dæmi þessu til sönnunar. Þykir mjer því afskaplegt að gera ráð fyrir því, að karlmenn fari að níðast á kvenfólki í þessu tilfelli, og er þetta ákvæði þess vegna ekki aðeins algerlega óþarft, heldur líka þinginu hreint og beint til vansa og leiðinda. Nú hefir farið svo, að hv. Ed. hefir viljað fara eftir því, sem konur hafa lagt til og viljað vera láta í þessu efni, og þá vænti jeg þess, að þessi hv. deild vilji ekki, að hægt sje að segja það, að henni hafi farist óriddaralegar gagnvart konunum heldur en hv. Ed., og það því fremur, sem jeg verð að játa það, mjer til mikilla leiðinda, að í hv. Ed. hefir maður ekki komist hjá því að verða var við, að þar hefir kent nokkurs kulda gagnvart þessum eina og fyrsta fulltrúa kvenfólksins á Alþingi; mjer hefir fundist þar kenna meiri kulda heldur en sennilegt væri og jafnvel sæmilegt. En hinsvegar veit jeg það, að þessi hv. deild hefir ekki látið neitt slíkt í ljós, og þess vegna vænti jeg þess, að deildin haldi nú áfram á sömu braut og sýni það með atkvgr. sinni, að hún ætlar ekki að gera neitt, sem hægt er að meta svo, að hún hafi ekki fulla virðingu fyrir kvenþjóðinni og kunni að meta hana rjettilega; yfir höfuð að tala, að þessi hv. deild hagi sjer eins og hver sæmilegur karlmaður á að gera gagnvart kvenfólkinu.