20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Árni Jónsson:

Það skal verða stutt, sem jeg segi. Jeg á brtt. á þskj. 246, ásamt hv. þm. Borgf. Það er um að fella niður 29. greinina í frv. því, sem hjer er til umr., en greinin er um það, að hlutbundnar kosningar skuli teknar upp í sveitum andir sjerstökum kringumstæðum, eða þegar þess er æskt af svo mörgum mönnum innan hreppsins, sem hefði þurft til þess að geta komið að einum manni í hreppsnefnd. Við höfum ekki sjeð ástæðu til þess að fara að innleiða þetta ákvæði í sveitunum; við lítum svo á, og jeg þykist hafa sannanir fyrir því, að þar, sem hlutbundnar kosningar eru hafðar, sje kosningin orðin pólitísk. En við lítum svo á, að hreppsmál út af fyrir sig sjeu ekki pólitísk, og því rjettara, að þau fari eftir persónulegum kunnugleik manna heldur en pólitík. Eins og nú er, er það svo, að það er víst mjög óvíða, að kosning er pólitísk í sveitum. Það er farið eftir persónulegum kunnugleik á mönnum, og jeg held, að það hafi gefist sæmilega vel. Einstaklingarnir geta gefið atkvæði sitt hverjum, sem þeir vilja, án tillits til pólitískra hluta, en með hlutbundnum kosningum mundi færast á þann veg, að það yrðu einstakir menn í hreppnum, sem undirbyggju lista, sem flokksmenn þeirra yrðu svo að fylgja, hvort sem þeim svo geðjaðist að mönnunum eða ekki. Af þessu myndu svo skapast í sveitunum flokkadrættir og kur, meira en á sjer stað, og okkur hefir ekki fundist rjett að gera mikið til þess að bæta á úlfúðina manna á meðal. Að vísu er hjer aðeins um heimild að ræða, en með þessari heimild álítum við, að verið sje að gefa í skyn, að þetta geti verið heppilegt fyrirkomulag.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Hv. deildarmenn eru svo kunnugir í sveitum, að þeir geta gert það upp með sjer, hvort þeir telji þetta heppilegt kosningarlag í sveitum, að gera kosningarnar pólitískar, því að í raun og veru er það sama að okkar áliti, og eftir því fer þá atkvæði þeirra um þessa litlu brtt. okkar.