20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki vera jafnfjölorður eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem altaf lengir umræður fram úr hófi.

Það er ekki rjett, að jeg hafi verið á móti brtt. hv. þm. (JBald) við 15. gr., en jeg taldi hana ekki nauðsynlega. Þessi hv. þm. er mótfallinn því, að kjörstjórn úrskarði um kjörgengi, en jeg tel það nauðsynlegt og enga ástæðu til þess að taka um þessar kosningar upp þá reglu, sem fylgt er við alþingiskosningar, enda ættu þá hreppsnefndir, bæjarstjórnir og sýslunefndir að fella fullnaðarúrskurð um kjörgengið, en það tel jeg ekki tryggilega.

Háttv. þm. Mýr. (PÞ) mælti fastlega með því að lækka aldurstakmarkið fyrir kosningarrjetti og kjörgengi niður í 21 ár og færði það sem aðalástæðu, að ýmsir menn til sveita mundu vilja fá kosningarrjett á þeim aldri. Vel má það vera, en óska þeir þá líka að vera kjörgengir? Það efast jeg meira um og tel ekki heldur rjett að fela svo ungum mönnum slík störf. Kosningarrjetturinn er nú orðinn svo almennur að tæpast er þörf á honum víðtækari.