20.04.1926
Neðri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Tryggvi Þórhallsson:

Það vill til, að jeg hefi ekki margt til málanna að leggja, enda mundi erfitt að sannfæra þá mörgu auðu stóla, sem hjer eru í hv. deild. En þó er það eitt atriði, sem jeg vil drepa á.

Háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og hv. þm. Borgf. (PO) bera fram brtt. um það, að fella niður 29. gr. frv.

Jeg verð að líta svo á, að greinin í stjfrv. sje eins og hún á að vera og nauðsynleg. Það er rjett hugsað, að ef svo margir menn, sem nægja mundu til þess að koma manni að, óska eftir hlutfallskosningu, að hún sje þá viðhöfð. Annars er ekki rjett að hafa hlutfallskosningar. Jeg tek undir það með hæstv. atvrh. (MG), að það þarf engin pólitík að vera í því, þótt menn óski hlutfallskosninga. Það koma upp mörg mál, sem menn skiftast greinilega um, og þá er rjett og farsælla, að minni hlutinn fái einnig hlutdeild í sveitarstjórn. Það mundi draga úr ófriði innan hreppa.

Jeg er því alveg á móti því, að brtt. á þskj. 246 sje samþykt.