29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1927

Hákon Kristófersson:

Jeg er illa viðbúinn að taka til máls, þar sem brtt., sem jeg hafði ekki athugað að þyrfti að endurprenta, er enn í prentun. En þar sem svo virðist, að ekki einu sinni frsm. þurfi að taka til máls, verð jeg að reyna að eyða tímanum stundarkorn.

Það vill svo vel til, að jeg á eina brtt. við 12. gr., sem fer fram á að veita Haraldi úrsmið Sigurðssyni sjúkrastyrk að upphæð 1200 kr. Jeg get farið fljótt yfir sögu. Það er berklaveikur maður, sem hjer á í hlut, sem hefir orðið að liggja á heimili sínu síðan síðastl. sumar, af því að ekki hefir fengist rúm fyrir hann í sjúkrahúsinu. Viðkomandi læknir hefir tjáð mjer, að þetta hafi orðið mjög kostnaðarsamt, og auk þess hefir heimilið verið forstöðulaust. Hann hafði hugsað sjer þennan styrk nokkru hærri, en jeg fór ekki lengra en að miða við þann halla, sem þegar er á orðinn hjá þessum manni.

Jeg býst við, að þó þessi till. fari í hækkunaráttina, verði viðurkent, að hún sje í flokki þeirra tillagna, sem mestan og bestan rjett eiga á sjer, en svo er um þær tillögur, sem miða að því að bæta heilsufar einstaklinga þjóðfjelagsins. Því aðeins hafa menn skilyrði til þess að vinna, að heilsufarið sje gott. Til að fara sem varlegast, hefi jeg haft till. í tveim liðum, sett 1000 kr. til vara. Jeg býst ekki við að hv. deild verði svo smátæk að hallast að síðari till., en ef hún álítur það sanngjarnara, mun jeg taka því með þökkum fyrir hönd hlutaðeiganda. Jeg þarf ekki að tala fyrir þessu frekar. Jeg skal aðeins benda á, að þessi maður er búinn að vera veikur í 8 mánuði, og jeg vænti þeirrar sanngirni af háttv. deild, að lægri liður till. nái a. m. k. fram að ganga.

Þó að brtt. mín, sem nú er í prentun sje ekki komin, get jeg raunar talað fyrir henni strax. Hún fer fram á að veita 500 kr. styrk fátækum bónda í Rauðasandshreppi, til þess að kosta lækningartilraunir á barni hans, sem lamast hefir af mænusótt. Læknar segja, að von sje um bata, ef barnið gæti komist hingað. Þetta er 4 ára gamalt barn og mjög efnilegt. Faðir þess er einyrki og á 7 eða 8 börn á unga aldri, svo að vonlaust er um, að hann geti af eigin ramleik kostað læknishjálp handa þessu barni. Jeg skal geta þess, að jeg mintist á það við manninn í vetur, hvort hann vildi ekki fá sveitarstyrk til að senda barnið til lækninga, en honum þótti það ekki aðgengilegt. Um aðrar leiðir var varla að ræða, því að fáir eru vinir hins snauða. Áður mun hafa verið veitt fje til slíkra sjúklinga í aukafjárlögum, en jeg býst við, að sú fjárhæð sje uppjetin. Ef svo er ekki, vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, að ef hægt væri að fá styrkinn þá leið, mundi jeg ekki leggja kapp á að fá þessa till. tekna upp. Jeg þarf ekki að lýsa því fyrir háttv. deild, hve ömurlegt er að eiga barn svona á sig komið og geta ekki veitt því þá hjálp, sem þarf. Jeg álít helgustu skyldu þjóðfjelagsins að styðja að því, að slíkir veslingar sem þessir geti fengið bót á heilsubresti sínum. Jeg verð að segja, þegar jeg lít yfir ýmsar stórar brtt., sem hjer eru bornar fram, að mjer þætti skrítilega við bregða, ef þeir, sem miða till. sínar við hundruð þúsunda, vildu ekki lána fylgi sitt nokkrum hundruðum króna, eða þó þúsundir væru, til manna, sem svo illa eru komnir, að þeir verða að leita til annara um fjárstyrk sjer til heilsubótar. Við marga erfiðleika er að stríða í þessu lífi, en sá er ekki hestur, að þurfa að leita til annara í þessu efni. Það vita þeir best, sem reyna.

Jeg finn ekki verulega ástæðu til að minnast á ýmsar till., sem tilheyra þessum kafla fjárlaganna. Jeg skal þó geta þess, að mjer hefir verið skýrt svo frá, að tilætlun fjvn. muni vera sú, að snúast á móti brtt. samgmn. við 13. gr. stafl. 2. Jeg vona, að þetta reynist ekki svo, er til atkvæða kemur. Mjer þykir a. m. k. ótrúlegt, að hv. form. fjvn. (ÞorlJ), sem skilur manna best, hve nauðsynlegt er, að samgöngur í afskektum hjeruðum sjeu í góðu lagi, snúist á móti þessari till., þar sem hann ljær fylgi sitt 200 þús. kr. fjárveitingu til strandferðaskips. Jeg skal taka fram, það sem jeg hefi að vísu tekið fram áður, að jeg er ekki á móti því fjárframlagi af því, að jeg vilji standa í vegi fyrir verklegum framkvæmdum, sem til hagsælda miða, eða jeg skilji ekki nauðsynina á því að fá bættar samgöngur. En jeg álít fjárhagslega getu ríkissjóðs ekki svo mikla, að hann geti að svo stöddu látið svo mikið fje af mörkum. Mjer þykir leitt, að einn hv. vinur minn hjer í deildinni hristir nú höfuðið mjög ákaft, og skilst mjer hann vilja segja, að nú glepjist mjer mjög sýn. En það er ekki svo knýjandi nauðsyn að baki þessa máls, að við getum ekki beðið enn 2–3 ár og haft sama fyrirkomulag og nú er, ef ríflegur styrkur er veittur til flóabáta. Það glepur mjer ekki sýn, þó að afkoma ríkissjóðs sje góð nú sem stendur. Jeg býst ekki við, að hjer verði altaf góðæri. Bráðum geta komið magrar kýr og jetið þær feitu. Af þessum ástæðum verð jeg á móti till. Það má þó geta nærri, hvort jeg hafi ekki þurft að hugsa mig um áður en jeg snýst á móti tillögu, sem annar eins sparnaðarmaður og hv. 1. þm. S.-M. ( SvÓ ) hefir gerst til að flytja. Þó að við hefðum tvö skip til strandferða, þyrfti engu að síður að halda við mótorbátaferðum. En jeg er hræddur um, að Alþingi kynni að gleyma þeirri nauðsyn, þegar skipin væru orðin tvö. Þó að við fengjum skip eins og Esju, mundi það ekki ganga inn á allar víkur og voga og leysa af hólmi mótorbátana.

Jeg verð að segja, að svo fremi 2. liður XXII. brtt. á þskj. 297 verður feldur, þá fer að leika mjög á tveim tungum um það, hversu mikil alvara hv. fjvn. er það að styðja að góðum samgöngum.

Það er ekkert launungarmál, að við vildum hafa þennan styrk hærri, þó að við sæjum okkur ekki fært að fara lengra. Það geta auðvitað orðið deildar meiningar um, hve rjettlátlega upphæðinni er jafnað niður. Mjer er tjáð, að hv. frsm. samgmn. (JAJ) hafi tekið fram, að sjer þætti styrkurinn til Hvalfjarðarbátsins of lágur. Eiga þessi orð háttv. frsm. að skiljast á þann hátt, að hann hafi verið sá eini í samgmn., sem áleit þann styrk of lágan? Jeg vil að gefnu tilefni upplýsa það, að jeg áleit, að sá styrkur væri fremur of lágur fyrir þau störf, sem báturinn innir af hendi.

Jeg sje nú, að hjer eru tvær tillögur, XX og XXI, sem fara í hækkunaráttina. Jeg veit ekki, hvort þær upphæðir eru ætlaðar ákveðnum bátum. Sje svo, hefði farið betur á að bera þetta undir samgöngumálanefnd. Jeg hefi skilið þetta svo, að þessar upphæðir skyldi leggja í hendur hæstv. atvrh., og ætti hann að verja þeim eftir bendingum og kunnugleika. Ef jeg greiði þessum till atkv., geri jeg það með því skilyrði.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að tala frekar um brtt. við þennan kafla. Það er ekki til annars en að ergja jafnsparsaman mann og mig að tala um ýmsar brtt., sem mjög leikur á tveim tungum um, hve þarfar sjeu.