06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Eins og háttv. þdm. er kunnugt, þá var þetta frv. lagt fyrst fram hjer og afgreitt hjeðan til hv. Nd., en er nú komið þaðan aftur með nokkrum breytingum. Eins og tekið er fram í nál. á þskj. 474, þá eru flestar þessar breytingar smávægilegar og gera frv. hvorki til nje frá. Skal jeg nú benda háttv. deild á, hverjar helstu breytingarnar eru. Þannig er bætt aftan við 4. gr., að úrskurði sýslunefndaroddvita og bæjarstjórnar skuli mega skjóta til stjórnarráðsins. Mun mega telja þetta frekar til bóta. Sama má segja um breytingu á 5. gr. Eftir henni er ætlast til þess, að helmingur bæjarstjórnar gangi úr á þriggja ára fresti, í stað 1/3 á tveggja ára fresti. Í 11. gr. var ákveðið, að kjörlistar til hlutbundinna kosninga skyldu komnir í hendur kjörstjórnar tveim sólarhringum fyrir kjördag. Nú er svo ákveðið, að þeir skuli fengnir í hendur kjörstjórn 14 dögum áður en kosning fari fram. Þetta eru aðalbreytingarnar, að undanskildri þeirri breytingu, sem vikið er að í nál. og borin fram brtt. við. Þegar frv. fór frá þessari háttv. deild, þá var svo frá því gengið, að konur væru jafnt skyldar og karlar til þess að taka við kosningu í bæjarstjórn og hreppsnefnd. Háttv. Nd. hefir nú felt þetta niður, svo það er nú eins og upphaflega stóð í frv. stjórnarinnar. Hvað þetta snertir, þá hefir meiri hluti þessarar háttv. deildar komist að þeirri niðurstöðu, að konur skuli vera skyldar að taka við kosningu í hreppsnefnd og einnig í fræðslunefnd, og sje jeg ekki ástæðu til að rökræða það frekar, því það yrði aðeins endurtekning á þeim umr., sem hjer hafa áður orðið um þetta mál. En jeg vænti þess, fyrst hv. meiri hl. þdm. var þessarar skoðunar fyrir fáum vikum, þá muni hann ekki hafa skift um skoðun síðan, og til þess bendir líka sú atkvgr., sem hjer fór fram áðan um till. hv. 4. landsk. um breyting á 24. gr. fræðslulaganna, um það, að konum skyldi ekki heimilt að skorast undan kosningu í skólanefnd. Annars virðist mjer stjórnin ekki hafa verið nægilega athugul hvað snertir þetta atriði í þeim lögum, er hún hefir lagt fyrir þingið og varða kosningar, er snerta málefni sveita og kaupstaða. Hún leggur t. d. til, að konur hafi þennan undanþágurjett í frv. um kosningar í sveitar- og bæjarmálefnum og í frv. um útsvör. Aftur er ekkert getið um slíkt í frv. til laga um fræðslu barna nje í frv. um hrossakynbótanefndir. Mjer virðist nú, ef það á ekki að nægja að skipa fyrir um þetta í aðallögunum um þessar kosningar yfirleitt, þá verði að taka það fram í öllum lögum, þar sem slíkt getur komið til greina, hvort konur skuli mega skorast undan kosningu eða ekki. Nú hefir deildin fallist á það, að konum skuli ekki rjett að skorast undan kosningu í skólanefnd.

Jeg mun svo ekki þreyta háttv. deild með lengri ræðu. Jeg hefi satt að segja ekki mikla trú á mannkærleika manna yfirleitt, sem mæla á móti þessu, fram yfir okkur hina, og að hann ráði þeirra gerðum. En það er mín skoðun óbreytt, að sömu rjettindum eigi að fylgja sömu skyldur.