06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Sigurður Eggerz:

Út af því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði um að þetta væri smáatriði, vil jeg spyrja hæstv. atvrh.: Af hverju er hann þá að standa á móti því, að þetta smáatriði komist inn í löggjöfina? Hví er hann að halda í þetta smáatriði, sem getur orðið frv. að falli? Stjórnin er heldur ekki sammála um þetta. Hæstv. forsrh. er á móti hæstv. atvrh.

Áskoranir þær, sem Alþingi hafa borist, ættu að vera næg sönnun fyrir því, að kvenkjósendur hjer fylgja þessu máli með áhuga. En um hvað talar hæstv. ráðherra (MG) við kvenfólk? Talar hann um mál eins og þetta? Hvernig halda hv. deildarmenn, að því yrði tekið, ef jeg kæmi fram með brtt. um, að karlmenn mættu skorast undan kosningu? Það yrði skoðuð hreinasta fjarstæða og jeg gerður að athlægi. Nei, það er gamla erfðakenningin um að maðurinn sje höfuð konunnar, sem hjerna stingur upp kollinum. Þetta er dularklædd vantraustsyfirlýsing, eins og hv. 4. landsk. rjettilega orðaði það. Hæstv. atvrh. sagði, að svona væri þetta í gildandi lögum, en til þess að gömlu erfðakenningarnar falli úr sögunni, þurfa ákvæði eins og þetta að ganga úr gildi. Við, sem erum frjálslyndir, viljum, að borgarar í þessu landi hafi engan rjettarlegan mismun og að allir gegni þeim skyldum, sem rjettindunum eru samfara. Þetta er framtíðarinnar stefna. Hjer er um stórt stefnuatriði að ræða, sem varðar meira en helming allra Íslendinga.