06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Atvinnumálaráðherra (MG):

Því miður komst jeg ekki í „stemningu“ yfir ræðu háttv. 1. landsk. En annars er honum því að svara, að jeg vil halda í þetta smáatriði af því, að ef frv. tekur breytingu í þessu efni nú, er jeg hræddur um, að frv. muni daga uppi og ekki komast gegnum þingið. Og jeg vil vissulega ekki leggja alt frv. í hættu fyrir þetta smáatriði, sem um er deilt. Þessi er ástæðan til þess, að jeg legg á móti, að frv. sje breytt nú, en alls ekki sú, að jeg geti ekki sætt mig við, að gildandi lögum sje breytt. Þetta datt mjer í hug, að væri leyfilegt að segja hjer. Jeg get ekki sjeð eftir atkvæðagreiðslunni í hv. Nd., að mjer hafi verið mjög mislagðar hendur, því að enn er ósjeð, hvar meiri hlutinn liggur. Það er deila á milli deildanna, og jeg veit ekki, hvernig atkvgr. fer í Sþ., en mjer er sárara um frv. í heild sinni en þetta eina atriði.

Hv. 1. landsk. spurði, um hvað jeg talaði við konur, en jeg harðneita að gefa honum nokkrar upplýsingar um það og finst það vera mjög nærgöngult af hv. þm. að spyrja um slíkt. En jeg hefi talað við konur um þetta umdeilda atriði, og þar eru þær alls ekki samdóma.

Hv. l. landsk. sagði, að ef hann kæmi fram með brtt. um, að karlmenn mættu skorast undan kosningu, mundi hann ekki vera skoðaður með fullu viti. Rjett mun það, en sá mun ekki heldur talinn með rjettu ráði, sem ætlar kvenfólki öll sömu störf eða verk og karlmönnum. Hv. þm. vill vera með kvenfólkinu í þessu, af því að það kostar ekkert. En þegar kemur að kvennaskólunum, versnar vinskapurinn. Ef hv. þm. (SE) vill vera sjálfum sjer samkvæmur, hlýtur hann að koma með till. um að leggja niður sjerskóla ríkisins handa karlmönnum, fyrst hann er á móti slíkum skólum handa kvenfólki, en kveðst vilja halda dauðahaldi í samræmi í skyldum og rjettindum.