06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Eggert Pálsson:

Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndarmenn greint á um þetta atriði. Eins og kunnugt er, stóð í frv., þegar það var upphaflega lagt fyrir af hæstv. stjórn, að konur hefðu rjett til að skorast undan kosningu, en allshn. breytti þessu á þá leið, að giftar konur hefðu þennan rjett. Og hv. þm. A.-Húnv. skrifaði undir nál. með þessari breytingu fyrirvaralaust, enda þótt vitanlegt væri, að hann hallaðist helst að því, að engar konur, hvorki giftar eða ógiftar, skyldu hafa þennan rjett frekar en karlmenn. En við litum svo á, hinir nefndarmennirnir, að þetta, að láta aðeins giftar konur hafa þennan rjett, væri nokkurskonar miðlunarvegur á milli okkar og hv. þm. A.-Húnv.

Mjer fyrir mitt leyti var og er það ljóst, að víða er svo ástatt, að ekkert heimilisfólk er nema hjónin og börnin, og er þá hart, ef á að taka konuna frá börnunum og láta hana vinna að opinberum málum, því að karlmenn eru alment ekki færir um að taka að sjer kvenmannsverkin. Þess vegna er það mikilsvert fyrir giftar konur að geta skorast undan kosningu.

Hv. 4. landsk. (IHB) vildi gera ráð fyrir þeirri sannsýni, að konum yrði ekki þröngvað til að taka við kosningu. Þetta finst mjer vera nokkuð bjart á litið, ef byggja á trygginguna eingöngu á því, þar sem allir vilja helst losna við að vera í hreppsnefnd, og þegar konur hafa með slíku kappi óskað eftir þessu, væri ósköp eðlilegt, að í sumum tilfellum mundu kjósendur ekki hika við að kjósa konur til þessa starfa, þótt þeim væri það nauðugt. Ímynda jeg mjer, að það gæti leitt til þess, að margar konur yrðu nauðugar reknar í hreppsnefnd. Jeg get ómögulega skilið, að í þessu felist neitt vantraust til kvenna. Ef þær hafa ástæður til að taka við kosningu og vilja það sjálfar, mundu þær kosnar, enda þótt þær hjeldu áfram þessum rjetti.

Hv. 1. landsk. (SE) gat þess, að þetta væri algerlega einsdæmi um karlmenn. En jeg rek mig hjer strax, einmitt í þessari sömu grein, á það, að sextugur maður getur skorast undan kosningu. Af hverju er honum gefinn kostur á því? Af því að þá er heilsan og kraftarnir farnir að bila, og hjer er einmitt „analógía“ við það, að gert er ráð fyrir, að konur eigi stundum erfitt með að taka við kosningu. Það er ekki hægt að þvinga þær frekar en slíkan mann.

Það, sem aðallega vakti fyrir okkur nú fyrir því að samþykkja frv. óbreytt, var það, að við vildum ekki stofna því í voða sakir þessa atriðis, því að með því að senda það svo til hv. Nd. er verið að stofna því í voða, þar, sem breytingin í frv. á þessu atriði var samþykt með helmingi fleiri atkvæðum en voru á móti. Það er því viðbúið, ef það fer til Nd., komi það í Sþ. Hvernig fara mundi í Sþ., skal ósagt látið. Annaðhvort verður að vera, að undanþágan stendur eða fellur þar. Yrði það ofan á, að breytingin yrði samþykt í Sþ., undanþágurjettur kvenna feldur, er svo komið, að sameinað Alþingi er búið að leggja þessa skyldu á konur. Og þá er jeg sannfærður um, að afleiðingin getur orðið sú, að konum verður fyrir þetta ofurkapp þeirra frekar en ella þrýst inn í hreppsnefndirnar.